Turkey tail og reishi sveppir hafa verið notaðir til lækninga öldum saman en síðustu 40 ár hafa þeir verið mikið notaðir sem viðbótarmeðferð við hefðbundna krabbameinsmeðferð í Asíu. Þeir hafa náð miklum vinsældum undanfarna áratugi á Vesturlöndum en mjög margar rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir styrkja ónæmiskerfið, hamla vexti krabbameinsfrumna og geta aukið lífslíkur og lífsgæði krabbameinssjúklinga til muna.

Sveppir sem viðbótarmeðferð

Þegar ég opnaði búð nýlega fékk ég strax marga krabbameinssjúklinga í heimsókn sem voru að leita sér að viðbótameðferð og höfðu heyrt um sveppina sem ég væri með. Í meira en áratug hef ég notað turkey tail og reishi samhliða sérblönduðum jurtum þegar ég hef fengist við krabbamein í ráðgjöfinni hjá mér. Meðferðin hjá mér hefur hinsvegar alltaf verið viðbótarmeðferð, ég hef aldrei mælt með því að fólk hætti hefðbundinni krabbameinsmeðferð og sé eingöngu á jurtum og sveppum. Smelltu til að lesa um jurtir, sveppi og ber sem viðbótarmeðferð gegn krabbameini.

Turkey Tail sveppur

Turkey Tail sveppurinn (Trametes versicolor) er langmest rannsakaður gegn krabbameini af öllum lækningasveppunum. Stórar klínískar rannsóknir hafa verið gerðar á virku efnunum PSK (Krestin) og PSP (Polysaccharide Peptide) sem sýnt hafa mjög jákvæðar niðurstöður í tengslum við margar tegundir af krabbameini. Árið 1977 var PSK (Krestin) úr turkey tail samþykkt af japanska heilbrigðisráðuneytinu sem hefðbundin krabbameinsmeðferð en það nemur 25% af öllum kostnaði við japanskar krabbameinsmeðferðir. Turkey Tail styrkir ónæmiskerfið og er vírusdrepandi en rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif á herpes og HIV vírusa. Að auki er hann bólgueyðandi og hefur reynst vel til að koma jafnvægi á þarmaflóruna, vernda lifur, lækka blóðsykur og gegn síþreytu (ME).

Turkey Tail

Reishi sveppur

Í Japan er notkun reishi (Ganoderma lucidum) samhliða annarri krabbameinsmeðferð viðurkennd af japanska heilbrigðisráðuneytinu en hann er talinn auka áhrif hefðbundinnar lyfjameðferðar við krabbameini og draga úr aukaverkunum hennar. Reishi styrkir ónæmiskerfið og hefur verið notaður gegn sjálfsofnæmissjúkdómum líkt og liðagigt, MS og lúpus og einnig lifrarbólgu B og C, vefjagigt, HIV/AIDS og herpes vírus. Hann er einnig vinsæll við svefnleysi, kvíða og stressi ásamt því að styrkja hjarta og æðakerfi sem og vernda lifur.

Reishi

Þetta er ekki tæmandi listi yfir allar rannsóknir

Ég vil taka það sérstaklega fram að þetta blogg er ekki yfirlit yfir allar rannsóknir sem hafa verið gerðar á turkey tail og reishi í tengslum við krabbamein. Þetta er engan vegin tæmandi listi því rannsóknirnar eru svo miklu fleiri. Ég lagði hinsvegar áherslu á að skoða klínískar rannsóknir á mönnum frekar en rannsóknir í tilraunaglösum og á dýrum þótt þær séu stundum teknar með.

Turkey tail og reishi geta aukið lífslíkur og lífsgæði

Yfirlitsrannsókn frá 2019 skoðaði 23 klínískar rannsóknir sem 4.246 krabbameinssjúklingar tóku þátt í til að meta áhrif turkey tail og reishi á krabbamein. Þessi greining komst að þeirri niðurstöðu að bæði turkey tail og reishi gætu aukið lífslíkur og lífsgæði krabbameinssjúklinga.

Turkey tail getur aukið áhrif krabbameinslyfja

Rannsóknir hafa sýnt að þegar PSP í turkey tail er tekið samhliða krabbameinslyfjum getur það aukið áhrif þeirra. Þetta hefur m.a. verið rannsakað með eftirfarandi lyfjum camptothecin, doxorubicin og etoposide, og cisplatin.

Ég mæli með að blanda turkey tail og reishi saman

Grasalæknar vinna sjaldan með eina jurt í einu heldur blanda nokkrum tegundum saman. Ein ástæða þess að jurtum er blandað saman er sú að ein jurt getur magnað upp verkun annarrar. Ég hef heimfært þessa hugsun upp á sveppi en ég hef lengi mælt með því að taka turkey tail og reishi saman gegn krabbameini. Hér geturðu keypt blöndu af turkey tail og reishi í jöfnum hlutföllum en ég mæli með að taka 2 msk af blöndunni á dag. Rannsókn frá 2013 sýnir að blanda af turkey tail og reishi hamlar vexti hvítblæðiskrabbameinsfrumna meira heldur en turkey tail einn og sér.

  • Turkey Tail og reishi sveppaduft 120 g

    11.490 kr.
    Setja í körfu Skoða

Rannsóknir sýna að turkey tail hefur hamlandi áhrif á krabbameinsfrumur

Fjölmargar klínískar rannsóknir hafa verið gerðar síðustu 40 árin á turkey tail og áhrifum hans á krabbamein en margar þeirra eru frá Asíu þar sem hefðbundið er að nota hann í krabbameinsmeðferðum. Margar stórar yfirlitsrannsóknir á þessum klínísku rannsóknunum hafa einnig verið gerðar en þær hafa sýnt fram á að turkey tail getur styrkt ónæmiskerfið og aukið lífslíkur og lífsgæði krabbameinssjúklinga. Hérna geturðu skoðað átta slíkar yfirlitsrannsóknir í viðbót: 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8. Eins hafa fjölmargar rannsóknir í tilraunaglösum og á dýrum sýnt fram á hamlandi áhrif turkey tail á margar tegundir af krabbameinsfrumum. Yfirlitsrannsókn frá 2020 tekur saman 33 rannsóknir í tilraunaglösum og 13 rannsóknir á dýrum sem sýna hamlandi áhrif hans á krabbameinsfrumur. Sama rannsókn tekur einnig saman 20 rannsóknir í tilraunaglösum og 17 rannsóknir á dýrum sem sýna að turkey tail styrkir ónæmiskerfið og getur þannig haft góð áhrif á krabbamein.

Rannsóknir á reishi hafa sýnt jákvæð áhrif á krabbamein

Niðurstöður yfirlitsrannsóknar sem skoðaði eingöngu tvíblindar klínískar rannsóknir gáfu til kynna að krabbameinssjúklingar sem tóku reishi samhliða geisla- eða lyfjameðferð náðu betri árangri en þeir sem ekki fengu reishi. Rannsóknin sýndi að lífsgæði jukust hjá þeim sem fengu reishi, sjúklingar þoldu hann vel og engar meiriháttar aukaverkanir komu í ljós. Rannsakendur gátu ekki mælt með reishi í staðinn fyrir hefðbunda krabbameinsmeðferð þar sem ekki væru fullnægjandi sannanir fyrir árangri og að auki var úrtak lítið (373 manns) og rannsóknaraðferðum ábótavant. Þeir sáu hinsvegar ekkert því til fyrirstöðu að gefa reishi sem viðbótarmeðferð samhliða hefðbundinni krabbameinsmeðferð í ljósi þess að hann gæti styrkt ónæmiskerfið og haft hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfrumna. Rannsóknir á reishi í tilraunaglösum hafa margoft leitt í ljós hamlandi áhrif hans á vöxt krabbameinsfrumna. Hér geturðu skoðað 18 rannsóknir í tilraunaglösum sem sýna fram á hamlandi áhrif reishi á krabbameinsfrumur. Einnig hafa rannsóknir á dýrum sýnt fram á sömu áhrif.

Brjóstakrabbamein

Yfirlitsrannsókn frá 2008 mælti með turkey tail sem viðbótarmeðferð til að styrkja ónæmiskerfið eftir skurðaðgerðir og lyfjameðferðir. Þessi rannsókn náði yfir fjórar klínískar rannsóknir á konum með brjóstakrabbamein (og 33 klínískar rannsóknir á öðrum tegundum krabbameina). Lítil klínísk rannsókn á turkey tail 2012 leiddi einnig líkum að því að turkey tail gæti styrkt ónæmiskerfið að lokinni hefðbundinni lyfja- og geislameðferð. Einnig kom í ljós að þær konur sem tóku þátt þoldu turkey tail vel. Yfirlitsrannsókn frá 2020 tók saman 6 rannsóknir í tilraunaglösum sem sýndu hamlandi áhrif turkey tail á brjóstakrabbamein. Rannsóknir í tilraunglösum og á dýrum hafa sýnt að reishi hefur hamlandi áhrif á brjóstakrabbamein. Rannsókn á dýrum frá 2014 sýndi fram á að reishi getur dregið úr meinvörpum af völdum krabbameins.

Ristilkrabbamein

Klínísk rannsókn á reishi sýndi fram á að inntaka yfir 12 mánaða tímabil dró úr fjölda og stærða krabbameinsæxla í ristli. Önnur klínísk rannsókn á reishi gaf til kynna hann hefði styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið hjá sjúklingum með ristilkrabbamein.  Rannsókn í tilraunaglösum frá 2019 á turkey tail og maitake svepp sýndi hamlandi áhrif þeirra á ristilkrabbameinsfrumur. Nýleg yfirlitsrannsókn tók saman 9 rannóknir í tilraunaglösum sem allar sýndu að turkey tail hafði hamlandi áhrif á ristilkrabbamein.

Lungnakrabbamein

Yfirlitsrannsókn frá 2015 sýndi að turkey tail getur styrkt ónæmiskerfið, dregið út einkennum af völdum æxla og aukið lífslíkur þeirra sem eru með lungnakrabbamein. Einnig kom í ljós að það var öruggt að gefa turkey tail samhliða og á eftir hefðbundinni geisla- og lyfjameðferð. Þessi yfirlitsrannsókn frá 2015 skoðaði 28 rannsóknir og þarf af voru 11 klínískar rannsóknir á mönnum. Rannsókn á PSP í turkey tail sýndi að hann minnkaði aukaverkanir og dró úr veikingu i ónæmiskerfinu hjá sjúklingum með lungnakrabbamein sem fengu hann samhliða hefðbundinni geisla- og lyfjameðferð. Önnur yfirlitsrannsókn benti á tvær rannsóknir í tilraunaglösum sem sýndu að turkey tail hafði hamlandi áhrif á lungnakrabbamein. Klínísk rannsókn á reishi leiddi líkur að því að hann gæti haft góð áhrif lungakrabbamein sem viðbótarmeðferð við hefðbundna krabbameinsmeðferð. Rannsóknin náði til 68 sjúklinga með langt gengið lungnakrabbamein og sýndi að reishi jók lífsgæði og dró úr einkennum af völdum krabbameinsins svo sem hita, verkjum, hósta, orkuleysi, svita og svefnleysi.

Magakrabbamein

Það kom fyrst í ljós í japanskri rannsókn 1994 að viðbótarmeðferð með turkey tail gæti aukið lífslíkur sjúklinga eftir hefðbundna meðferð við magakrabbameini. Yfirlitsrannsókn 2007 skoðaði áhrif turkey tail á magakrabbamein en skoðaðar voru 8 klínískar rannsóknir með þáttöku 8.009 sjúklinga. Þessi greining komst að þeirri niðurstöðu að viðbótarmeðferð með turkey tail eykur lífslíkur sjúklinga með magakrabbamein að krabbameinsmeðferð lokinni. Að auki hefur ein stór rannsókn í Japan (sem ekki var tekin með í yfirlitsrannsókninni frá 2007) með 751 sjúklingum með magakrabbamein sýnt fram á að að PSK í turkey tail getur aukið lífslíkur að lokinni hefðbundinni krabbameinsmeðferð.  Önnur rannsókn á turkey tail sýndi að hann dró úr aukaverkunum og veikingu í ónæmiskerfinu hjá sjúklingum með magakrabbamein sem fengu hann samhliða hefðbundinni geisla- og lyfjameðferð. Að lokum hefur lítil rannsókn á 10 manns með magakrabbamein á þriðja stigi leitt líkur að því að lífslíkur þeirra sem fengu turkey tail (PSK) ásamt hefðbundinni meðferð voru umtalsvert betri en þeirra sem ekki fengu turkey tail. Rannsóknir í tilraunaglösum hafa einnig sýnt fram á að turkey tail hefur hamlandi áhrif á magakrabbameinsfrumur.

Blöðruhálskirtilskrabbamein

Rannsókn á virka efninu PSP í turkey tail leiddi í ljós hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfrumna í blöðruhálskirtli en rannsóknin var gerð í tilraunaglösum og á dýrum. Þessi rannsókn í tilraunaglösum leiddi það sama í ljós. Rannsókn 2018 í tilraunaglösum á reishi hefur einnig sýnt fram á hamlandi áhrif á vöxt blöðruhálskirtliskrabbameinsfrumna. Fleiri rannsóknir í tilraunaglösum á reishi hafa einnig sýnt hamlandi áhrif á blöðrukirtilskrabbamein eins og t.d. þessar frá 2003, 2004 og 2020.

Leg-, legháls og eggjastokkakrabbamein

Rannsókn á PSP í turkey tail sýndi að það jók lífsgæði, stillti verki umtalsvert og styrkti ónæmiskerfið í 70% sjúklinga með eggastokka- og leghálskrabbamein.  Í annarri rannsókn var turkey tail gefið konum með þriðja stigs leg- og leghálskrabbamein samhliða geislameðferð og það jók bæði lífslíkur og áhrif geislameðferðinnar. Rannsókn á konum með leghálskrabbamein sýndi að turkey tail gefinn samhliða geislameðferð hamlaði vexti krabbameinsfrumna í 36% sjúklinga á móti 11% í samanburðarhópi og 5 ára lífslíkur jukust úr 48% í 79%. Turkey tail hefur einnig verið gefinn 39 konum í mikilli hættu á því að fá leghálskrabbamein (áhættusamt afbrigði af HPV vírus). Í þeirri rannsókn kom í ljós að 9 af hverjum 10 konum sem fengu turkey tail voru lausar við HPV vírusinn eftir eitt ár á móti 1 af hverri 12 konum í samanburðarhóp sem ekki fengu turkey tail. Þegar turkey tail var gefið samhliða hefðbundnu krabbameinslyfi (cisplatin) kom í ljós að það jók það virkni krabbameinslyfsins í eggjastokkakrabbameinsfrumum. Tvær rannsóknir í tilraunaglösum hafa einnig sýnt fram á að turkey tail hamlar vexti leghálskrabbameinsfrumna.

Vélindakrabbamein

Japanskar rannsóknir á turkey tail sýna að hann eykur lífslíkur hjá sjúklingum með vélindakrabbamein. Tvíblindar klínískar rannsóknir á turkey tail sýna einnig að hann eykur lífslíkur umtalsvert hjá sjúklingum með vélindakrabbamein, eykur lífsgæði þeirra, dregur úr verkjum og styrkir ónæmiskerfi hjá allt að 70% sjúklinga. Ein rannsókn sýndi einnig að inntaka á turkey tail dró úr aukaverkunum af hefðbundnum geisla- og lyfjameðferðum hjá sjúklingum með vélindakrabbamein.

Nefkokskrabbamein

Blanda af turkey tail og danshen (kínversk salvía) var gefin 27 sjúklingum með nefkokskrabbamein í tvíblindri rannsókn. Þessi rannsókn leiddi í ljós að blandan styrkti ónæmiskerfið og jók hvítu blóðkornin meðan á geislameðferð stóð.

Krabbamein í hundum

Ég varð vör við það fyrir nokkrum árum að dýralæknar voru að benda fólki á að fá turkey tail hjá mér fyrir hundana sína sem voru með krabbamein. Ég velti því ekkert sérstaklega fyrir mér en var bara glöð yfir því hvað dýralæknar á Íslandi væru orðnir víðsýnir. Svo hef ég tekið eftir því að æ fleiri leita til mín vegna krabbameins í hundum og þegar ég var að skrifa þetta blogg þá komst ég loksins að því afhverju. Rannsókn var gerð á hundum árið 2012 með hemangiosarcoma krabbamein en það er krabbamein sem er aðallega í milta og dreifir sér mjög auðveldlega. Jafnvel þótt miltað sé fjarlægt eru lífslíkur mjög litlar og einungis 10% líkur á því að lifa lengur en 12 mánuði. Í þessari rannsókn var turkey tail gefið hundum án þess að þeir fengju nokkra aðra meðferð. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að krabbameinið dreifði sér mun seinna og lífslíkur jukust umtalsvert, sér í lagi með aukinni skammtastærð.

  • Turkey Tail sveppaduft 120 g

    11.490 kr.
    Setja í körfu Skoða

Skammtastærðir

Til þess að leysa upp virk efni í turkey tail og reishi skiptir máli að vinna þá rétt, það dugar ekki bara að þurrka þá og mala í duft. Hefðbundin aðferð er að sjóða seyði af sveppum í langan tíma til að leysa upp vatnsleysanleg efni eins og PSP og PSK í turkey tail. Úr þessu verður mauk sem er svo þurrkað og malað í duft. Turkey tail og reishi sveppaduftið sem ég býð upp á er búið til á þennan hátt. Dæmigerð skammtastærð er 1-6 gr af sveppadufti sem er unnið á þennan hátt en ég miða við 1-2 tsk á dag. Ég hef hinsvegar alltaf mælt með stærri skammtastærð þegar um krabbamein er að ræða eða 1 msk af turkey tail og 1 msk af reishi á dag.

Notkun

Ég mæli með 2 msk á dag af þessari blöndu af turkey tail og reishi sveppadufti sem viðbótarmeðferð fyrir krabbameinssjúklinga. Það er þægilegast að taka sveppaduftið á morgnana með morgunmat en það er heldur ekkert því til fyrirstöðu að taka það á öðrum tíma dags ef það hentar betur. Hrærið sveppaduftið út í vatn (heitt eða kalt), graut, hristinga, AB mjólk eða safa. Það er frekar bragðlaust og mér finnst lítið mál að bæta því út í graut á morgana. Eins er þægilegt að blanda sveppadufti út í glas af vatni ásamt c-vítamín freyðitöflu, sérstaklega ef verið er að taka stóra skammta af sveppum. Athugið að sveppaduft leysist ekki að fullu upp í vatni og skal drekka botnfallið líka. Ég mæli með samfelldri notkun í a.m.k. þrjá til sex mánuði þegar um langvarandi veikindi eins og krabbamein er að ræða.

Eru jurtir, krydd og ber líka góð viðbótarmeðferð?

Sveppir eru ekki bara góðir sem viðbótarmeðferð gegn krabbameini, rannsóknir sýna einnig að jurtir og ber geta hamlað vexti krabbameinsfrumna. Hérna geturðu lesið um jurtir, krydd og ber sem viðbótarmeðferð gegn krabbameini. Ég hef líka sett saman pakkatilboðið – viðbótarmeðferð sem inniheldur turkey tail og reishi sveppaduft, tinktúruna mjólkurþistill og túmerik,  og tinktúruna ashwagandha. Ég mæli með samfelldri notkun á öllum þremur vörunum samhliða í a.m.k. þrjá til sex mánuði þegar um langvarandi veikindi eins og krabbamein er að ræða.

  • Sale!

    Pakkatilboð – viðbótarmeðferð

    20.990 kr.
    Setja í körfu Skoða

Hvað ber að varast?

Þeir sem eru með ofnæmi gegn sveppum eða myglu ættu ekki taka reishi og turkey tail. Í stórum skömmtum geta þessir sveppir valdið meltingartruflunum og niðurgangi. Reishi getur mögulega aukið blæðingar og hafa skal það í huga fyrir þá sem eru á blóðþynnandi lyfjum. Hætta skal notkun reishi a.m.k. einni viku fyrir skurðaðgerð og konum með miklar tíðablæðingar er ekki ráðlagt að taka stóra skammta af reishi. Sjaldgæfar aukaverkanir ef reishi eru ógleði og svefnleysi samhliða lyfjameðferð gegn krabbameini. Mögulegar aukaverkanir af eingangraða efninu PSK í turkey tail eru dökkar hægðir og dekkri neglur á fingrum samhliða lyfjameðferð gegn krabbameini, en slíkar aukaverkanir get einnig verið af völdum lyfjameðferðarinnar sjálfrar.

Litla búðin okkar

Ég og sonur minn opnuðum nýlega búð á Langholtsvegi 109 í Reykjavík og þar fást sveppirnir ásamt mörgum öðrum vörum sem við framleiðum. Búðin er á sama stað og öll framleiðsla fer fram og mörgum finnst gaman að fá innsýn inn í þann heim hjá okkur. Búðin er eingöngu opin á fimmtudögum og föstudögum frá 12-16. Sveppirnir fást líka á vefverslun hjá okkur, smelltu til að skoða pakkatilboðið sem innheldur þá.

  • Sale!

    Pakkatilboð – viðbótarmeðferð

    20.990 kr.
    Setja í körfu Skoða

Botanical Safety Handbook. 2013. AHPA (American Herbal Products Association). 2. útg. CRC Press, Florida, USA.

Hobbs Christopher. 1995. Medicinal Mushrooms. Botanica Press, Tennessee, USA.

Powell Martin. 2014. Medicinal Mushrooms. A Clinical Guide. Mycology Press, UK.

Rogers Robert. 2011. The Fungal Pharmacy. North Atlantic Books, California, USA.

Tillotson Alan Keith. 2001. The One Earth Herbal Sourcebook. Kensington Books, New York, USA.

Winston David og Kuhn.M. 2008. Herbal Therapy and Supplements. Lippincott Williams and Wilkins, PA, USA.

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir