Bólur eru hvimleitt vandamál sem getur haft mikil áhrif á andlega líðan og sjálfstraust, en flestir þurfa að kljást við þær á einhverjum tímapunkti. Þegar sonur minn var unglingur ákvað ég að þróa 100% náttúrulega meðferð gegn bólum fyrir hann en vinir hans fréttu fljótlega af þessum skjótvirka bóluhreinsi og fóru að biðja um hann. Orðspor bóluhreinsins jókst og jókst í þrjú ár þar til ég setti hann loksins í búðir. Þar seldist hann upp á örskotsstundu og hefur síðan þá ekki eingöngu verið vinsælasta varan mín, heldur einn vinsælasti bóluhreinsirinn á Íslandi!

1) Eingöngu 100% heilnæm innihaldsefni

Í bóluhreinsinum eru þrjár jurtir: vallhumall, morgunfrú og blóðberg. Ég tíni sjálf allar íslensku jurtirnar sem ég nota í vörurnar mínar og nota til dæmis ferskan vallhumal til að búa bóluhreinsinn til. Ég nota fersk blóm og blöð til að búa til tinktúru (jurtir í alkóhóli) úr jurtinni sem þýðir að ég bý þær til sama dag og ég tíni hann. Ég blanda svo vallhumalstinktúru saman við aðrar jurtir og úr verður bóluhreinsir.

  • Vallhumall er uppáhaldsjurtin mín til að draga úr bólum og hún er líka mjög rakagefandi fyrir húðina.
  • Morgunfrú róar rauða og pirraða húð og gerir hana mjúka. Hún getur einnig komið í veg fyrir öramyndun.
  • Blóðberg er bakteríudrepandi og bólgueyðandi, sem gerir það öflugt gegn bólum.

Allir þessir kostir sameinast í bóluhreinsinum mínum sem gera hann fullkominn gegn bólum. Það eru engin aukaefni eða rotvarnarefni í bóluhreinsinum. Ég nota engin óholl efni í mínum húðvörum en hér geturðu skoðað lista sem ég bjó til yfir 10 óhollustu efnin svo þú getir lært að forðast þau.

Hormónar og bólur

Bólur eru oftar en ekki hormónatengdar og flestir fá bólur á unglingsárunum. Þó geta hormónabreytingar í kringum meðgöngu eða breytingaskeið valdið bólum í konum. Einnig er þekkt að bólur geta fylgt rósroða en hér geturðu lesið um náttúrulega meðferð við rósroða. Þá getur hjálpað að huga enn frekar að mataræðinu og lágmarka stress. Á kynþroskaaldrinum myndast hormónatengdar bólur gjarnan á enni, nefi og höku. Bólur seinna á lífsleiðinni myndast aðallega á neðri hluta andlits, til dæmis á kinnum og kjálka.

Hvað er til ráða?

Ýmsir þættir geta haft áhrif á ástand húðar, líkt og flestir vita, og geta lausnir verið mjög persónubundnar. Þó eru nokkur atriði sem vert er að sjá hvort hjálpi þinni húð:

2) Ekki koma við andlitið þitt

Með því að koma við andlitið með skítugar hendur dreifirðu óhreinindum og olíu af puttunum á húðina sem getur stíflað svitaholur og valdið bólum.

3) Skiptu reglulega um koddaver

Olía og óhreinindi úr hári berast í andlitið af koddaverum. Sömuleiðis safnast dauðar húðfrumur fyrir sem við nuddum húðinni upp úr kvöld eftir kvöld. Með því að skipta reglulega um koddaver, til dæmis tvisvar til þrisvar í viku, er hægt að koma í veg fyrir að óhreinindi setjist á húðina eftir að þú hefur þrifið hana fyrir svefninn.

4) Notaðu rakakrem

Bólum fylgir gjarnan olíukennd húð og því gæti manni fundist langsótt að bera meiri fitu eða raka á húðina. Sannleikurinn er sá að húðin framleiðir meiri olíu eftir því sem hún verður þurrari. Þessi olía getur stíflað svitaholurnar og þannig leitt til verra ástands húðar. Þannig getur rétta rakakremið skipt sköpum fyrir húðina. Dagkremið mitt er hannað sérstaklega fyrir feita og blandaða húð og stíflar þess vegna ekki svitaholur en það er í pakkatilboðinu – bólur.

5) Skiptir mataræðið einhverju máli?

Þegar ég fæ sjúklinga til mín sem vilja losna við bólur byrja ég oft á að taka mataræðið í gegn því það getur haft mikil áhrif á ástand húðar. Ég hef nefnilega margoft séð að mataræði getur haft mikil áhrif á bólur, sama á hvaða aldri fólk er. Hér er listi yfir það helsta sem ég ráðlegg þeim að forðast:

  • Súkkulaði (líka dökkt)
  • Sætindi og ís
  • Gosdrykki, orkudrykki og kaffi
  • Mjólkurvörur
  • Unnar kjötvörur (svo sem pylsur, pepparóní og skinku)
  • Skyndibita (svo sem pítsur, hamborgara og djúpsteiktan mat)

Í staðinn mæli ég með að þeir borði meira af grænmeti, ávöxtum, fiski, óunnu kjöti og grófu brauði í hófi. Þar að auki er mikilvægt að drekka nóg af vatni og jurtatei.

6) Lágmarkaðu stress

Andlega hliðin er ekki síður mikilvæg en sú líkamlega. Einn mikilvægasti þátturinn sem hefur áhrif á bólumyndun er stress en sem betur fer eru til ýmsar leiðir til að takast á við stress og læra að forðast það.

Hugleiðsla

Flest erum við oftar stressuð en við kysum að vera. Þá er gott að geta gengið að vísri lausn til að róa hugann og dýpka öndunina. Með því að hugleiða daglega í 10 mínútur gerir þú húðinni þinni greiða og eykur vellíðan í leiðinni. Svona getur þú byrjað að hugleiða:

  • Sestu eða leggstu og lokaðu augunum
  • Leggðu höndina á magann, einbeittu þér að andardrættinum og hægðu smám saman á honum
  • Leyfðu þeim hugsunum sem koma upp í hugann svífa í gegn án þess að dæma þær

Hérna geturðu lesið meira um hugleiðslu og aðrar leiðir til að efla andlega heilsu.

Dansaðu það af þér

Regluleg hreyfing er frábær leið til að losa um stress, og þá sérstaklega ef þú finnur hreyfingu sem þú hefur gaman af. Mér finnst gott að fara í göngutúra, sund eða jóga en ég mæli sérstaklega með dansi, þannig geturðu hreyft þig án þess að einu sinni taka eftir því vegna þess að það er svo gaman! Stilltu á uppáhalds tónlistina þína og gerðu það sem líkaminn segir þér að gera eða fylgdu æfingamyndböndum á netinu. Mundu bara að þvo þér í framan eftir á svo svitinn og óhreinindin liggi ekki lengi á húðinni.

Hvernig nota ég bóluhreinsinn?

Best er að hrista bóluhreinsinn áður en hann er notaður. Notaðu svo bómull eða eyrnapinna til að bera eingöngu á bólur þrisvar til sex sinnum á dag. Athugaðu að þetta er ekki andlitsvatn til að bera á allt andlitið, heldur bara á bólurnar sjálfar. Hreinsinn má nota á meðgöngu og hann má líka nota á bólur á líkama. Ég mæli með að nota dagkremið mitt með bóluhreinsinum því það hentar afar vel fyrir viðkvæma og blandaða húð. Þá er bóluhreinsirinn fyrst borinn á bólurnar og látinn vera, síðan er dagkremið borið yfir. Bóluhreinsirinn og dagkremið eru í pakkatilboði fyrir bólur sem er langvinsælasta varan mín í vefverslun.

  • Sale!

    Pakkatilboð – bólur

    Original price was: 14.480 kr..Current price is: 12.990 kr..
    Setja í körfu Skoða

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir