Það er svo mikið af óhollum efnum í húðvörum að það er ansi erfitt að forðast þau. Það er hinsvegar engin þörf á að nota þau ef þú veist hvað þú ert að gera þegar þú býrð til húðvörur (og ef þú ert tilbúin til að borga fyrir betri og dýrari innihaldsefni). Ég nota engin óholl efni (oft kölluð eiturefni) í mínum húðvörum en slík efni eru svo algeng að það er nauðsynlegt að vera meðvitaður um þau. Ég ákvað þessvegna að búa til lista fyrir þig yfir 10 óhollustu efnin í húðvörum til að hjálpa þér að forðast þau.

Parabenar

Parabenar eru samansafn af rotvarnarefnum úr hráolíu sem eru í innihaldslýsingu undir eftirfarandi nöfnum: methylparaben, butylparaben, propylparaben, ethylparaben, isobutylparaben. Þeir eru í kremum, förðunarvörum, hárvörum, mat o.fl. Evrópusambandið hefur bannað 5 tegundir af parabenum í snyrtivörum.

Afhverju að forðast: Parabenar trufla hormóna- og æxlunarstarfsemi. Þeir eru einnig tengdir við brjóstakrabbamein og þroskaraskanir í ungabörnum.

Kemísk ilmefni

Kemísk  ilmefni (synthetic fragrance) er samheiti yfir meira en 100 kemísk efni sem búa til ilm en yfir 3000 ilmefni eru til. Þessi kemísku efni eru oft úr hráolíu og ftalötum en þau eru í innihaldslýsingu undir eftirfarandi nöfnum: fragrance, parfum og eau de toilette. Þau eru í ilmvötnum, svitalyktareyði, kremum, hárvörum o.fl. Evrópusambandið takmarkar notkun margra kemískra ilmefna í snyrtivörum.

Afhverju að forðast: Þau eru mjög ofnæmisvaldandi og meðal fimm helstu ofnæmisvalda í heimi. Kemísk ilmefni geta valdið höfuðverk, mígreni, bólgum í húð og exemi. Þau eru tengd við truflanir á hormónastarfsemi, skaða á æxlunarfærum og krabbamein.

Jarðolíur og parafín

Jarðolíur (mineral oils) og parafín eru aukaafurðir í hráolíuiðnaðinum en þær eru notaðar til að mýkja og gefa raka og ljóma. Þær eru í innihaldslýsingu undir eftirfarandi nöfnum: paraffin/white mineral oil, petroleum jelly, liquid paraffin og liquid/white petroleum. Þær eru í kremum, smyrslum, varasalva, barnaolíum og smyrslum, hárvörum o.fl. Evrópusambandið flokkar þessar olíur sem krabbameinsvaldandi og takmarkar notkun þeirra í snyrtivörum.

Afhverju að forðast: Þessar olíur eru oft mengaðar af krabbameinsvaldandi óhreinindum. Þær eru líka tengdar við ofnæmi og ertingu í húð og geta stíflað húð og valdið bólum og fílapenslum.

DBP eða dibutyl ftalöt

Þetta efnasamband er notað sem mýkiefni og til að auka endingu kemískra ilmefna. Í innihaldslýsingu er það undir eftirfarandi skammstöfunum: DEP, DBP, DEHP, BBZP, DMP og MEP. Það er í ilmvötnum, kremum, naglalakki, hárvörum ofl. Evrópusambandið hefur bannað ftalöt í leikföngum og sum af þeim í snyrtivörum. Kanada hefur bannað DEHP í snyrtivörum.

Afhverju að forðast: Það getur auðveldlega lekið úr vörum og sogast inn í húð, lungu og þarma. Það getur valdið frávikum í þroska og æxlunarfærum og er tengt við lágt magn af sæðisfrumum, fósturlát, ófrjósemi og offitu. Það getur líka truflað hormónastarfsemi og valdið ofnæmi, astma, exemi, krabbameini, röskun á skjaldkirtli og ADHD.

Kemísk litarefni

Kemísk litarefni koma úr hráolíu eða koltjöru. Eitt litarefni getur verið samsett úr mörgum kemískum efnum. Í innihaldslýsingu eru þau undir eftirfarandi skammstöfunum: FD&C eða D&C, t.d. FD&C Blue no.2 eða bara nafn litarins eins og t.d. Yellow 5. Litir sem eru úr koltjöru eru auðkenndir með fimm-stafa (C.I) litanúmeri. Kemískir litir eru í kremum, andlitshreinsi, naglalakki, hárvörum, sápu, tannkremi ofl. Evrópusambandið hefur bannað marga liti úr koltjöru sem notaðir eru í háralitum.

Ahverju að forðast: Þeir eru tengdir við ertingu í húð og ýmsar tegundir af krabbameinum. Þeir geta líka innihaldið þungmálma sem eru óhollir fyrir heila.

Siloxanes og silanes

Þetta eru efnasambönd úr sílíkoni sem notuð eru sem bindiefni og til að mýkja og slétta. Í innihaldslýsingu skaltu leita að endingunni „siloxane,” „ethicone” og „silane” í orðasamböndum. Dæmi eru cyclotetrasiloxane (D4), cyclopentasiloxane (D5), cyclohexasiloxane (D6), cyclomethicone, dimethicone og polydimethylsiloxane. Þau eru í kremum, svitalyktareyði, hárvörum, kynlífsvörum ofl.

Afhverju að forðast: Þessi efni geta truflað hormónastarfsemi, valdið ófrjósemi og skaðað æxlunarfærin. Þau eru tengd við krabbamein, geta skaðað ónæmiskerfið og valdið uppsafnaðri mengun í umhverfinu.

Formaldehýð

Þetta er hópur af rotvarnaefnum sem leysa formaldehýð úr læðingi. Í innihaldslýsingum eru þau undir eftirfarandi nöfnum: DMDM hydantion, dimethylol urea, quaternium-15, bronopol, diazolidinyl urea, imadazolidinyl urea, polyoxymethylene urea, sodium hydroxymethylglycinate, 2-bromo-2-nitropropane-1,3 diol og glyoxal. Þau eru í kremum, naglalakki, hárvörum, baðvörum, förðunarvörum, augnhára- og naglalími. Evrópusambandið og Kanada hafa takmarkað notkun þessara efna í snyrtivörum og Japan og Svíþjóð hafa bannað þessi efni í snyrtivörum.

Ahverju að forðast: Þau eru þekkt sem krabbameinsvaldandi og geta valdið ertingu og ofnæmisviðbrögðum í húð, augum, nefi og hálsi.

BHA og BHT

Þetta eru náskyld kemísk andoxunarefni notuð til að rotverja. Í innihaldslýsingu eru þau undir eftirfarandi nöfnum: BHA eða butylated hydroxyanisole og BHT eða butylated hydroxytoluene. Þau eru í kremum, svitalyktareyði, förðunarvörum, ilmvatni, varasalva, hárvörum og mat. Evrópusambandið hefur bannað BHA sem ilmefni í snyrtivörum.

Afhverju að forðast: Þau geta valdið húðofnæmi, krabbameini og truflað hormóna. Þau eru líka tengd við vanvirkni í lifur, skjaldkirtli, blóði, lungum og nýrum. Þessi efni geta valdið uppsafnaðri mengun í umhverfinu.

DEA, MEA og TEA

DEA, MEA og TEA eru ammóníumefnasambönd notuð sem bindi- og freyðiefni. Í innihaldslýsingu eru þau undir eftirfarandi nöfnum: DEA, MEA, TEA, monoethanolamine, diethanolamine og triethanolamine, cocamide DEA, cocamide MEA, lauramide DEA og stearamide MEA. Þau eru í kremum, sólarvörn, bað- og hárvörum, förðunarvörum og ilmefnum. Evrópusambandið flokkar DEA sem skaðlegt og takmarkar notkun þess í snyrtivörum.

Afhverju að forðast: Þessi efni hafa samverkandi áhrif á önnur efni og verða við það krabbameinsvaldandi. Þau valda astma og ertingu í húð og augum. Þau eru einnig þekkt fyrir að trufla hormónastarfsemi og eru tengd við lifrarkrabbamein og frumubreytingar í húð og skjaldkirtli. Þessi efni geta valdið uppsafnaðri mengun í umhverfinu.

Retinolefnasambönd (Vítamín A)

Retinol og tengd efnasambönd eru kemísk útgáfa af A-vítamíni og notuð til að hægja á öldrun húðar og draga úr bólum. Í innihaldslýsingu eru þau undir eftirfarandi nöfnum: retinol, vitamin A, retinyl acetate, retinyl palmiate, retinyl linoleate og all-trans retinoic acid. Retinol er í hrukkukremum, bólukremum, förðunarvörum, sólarvörn, varasalva o.fl. Evrópusambandið hefur bannað Tretinoin (all-trans retinoic acid) í snyrtivörum.

Afhverju að forðast: Það getur mögulega valdið krabbameini við notkun í sól, þroskafrávikum og skaða í æxlunarfærum.

Önnur óholl innihaldsefni til að forðast

Ég nota ekki heldur eftirfarandi efni (og mun aldrei gera):

  • SLS (sodium lauryl sulfate – freyðiefni)
  • SLES (sodium laureth sulfate – freyðiefni)
  • Triclosan (sýkladrepandi efni)
  • PABA (sólarvörn)
  • Aluminum (dregur úr lykt)
  • MI/MIT/MCI/BIT (isothiazolinone rotvarnarefni)
  • Plastagnir (húðflagnandi og fylliefni)
  • Hydroquinone (húðlýsandi efni)
  • Dýraafurðir nema lífrænt bývax

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir