Í gegnum árin hef ég þróað hinn fullkomna morgunmat því ég trúi því að fegurðin komi innan frá og að gæði þess sem þú lætur ofan í þig sjáist á ástandi húðarinnar. Staðreyndin er sú að ekkert krem getur hjálpað þér ef þú borðar bara óheilnæman mat. Með því að einblína á næringarríka ofurfæðu getur þú borðað leið þína að fallegri húð. Þess vegna geri ég þessa einföldu og hollu morgunverðarskál á hverjum degi og ætla að deila uppskriftinni með ykkur. Hún er tilbúin á 10 mínútum!

Hvers vegna veitir þessi ofurfæða fallega húð?

Þessi uppskrift er algjört kraftaverk fyrir húðina því hún inniheldur helling af næringarefnum sem stuðla að heilbrigðari húð. Hnetur og fræ innihalda heilbrigða fitu sem gefur orku og hjálpar þér að taka upp næringarefni. Epli og ber eru gómsæt og vítamínrík svo þú getur borðað þetta í morgunmat og vitað að það er gott fyrir þig.

Bláber í morgunmat

Aðalhráefnið er bláber, sem er ein besta uppspretta andoxunarefna sem til er. Þau innihalda mikið af C-vítamíni, sem gerir þau góð fyrir húðina. Þar að auki eru þau bólgueyðandi sem er mikilvægt þegar glímt er við húðsjúkdóma á borð við bólur og rósroða. Ég tíni mín eigin bláber á haustin og frysti þau, en að sjálfsögðu er líka hægt að kaupa úr búð – en hafðu þau helst íslensk (fást frosin í búðum) eða lífræn erlend. Ástæðan fyrir því að ég kýs lífræn bláber (og lífrænan mat almennt) er sú að ólífræn bláber geta innihaldið skaðleg rotvarnarefni. Hér er mynd af íslenskum bláberjum (ég borðaði þau eftir á og þau voru gómsæt!)

HInn fullkomni morgunmatur fyrir geislandi húð

Ljómandi epli

Epli innihalda mikilvæg næringarefni fyrir húðina. Þau innihalda A-vítamín í litlu magni og mikið af C-vítamíni, sem er gagnlegt fyrir húðina. Þar að auki eru þau rakagefandi því þau hafa hátt vatnsinnihald.

Hinn fullkomni morgunmatur fyrir geislandi húð

Hnetur og fræ eru ofurfæði

  • Hnetur og fræ eru frábær leið til að bæta hollum fitum í mataræðið þitt.
  • Graskersfræ eru rík af ómega-3 og ómega-6 fitusýrum og innihalda líka mikið af sinki sem er bólgueyðandi. Þess vegna geta graskersfræ hjálpað við að meðhöndla roða og ör eftir bólur.
  • Hampfræ eru góð uppspretta ómega-3 fitusýra og eru rík af E-vítamíni og magnesíum.
  • Valhnetur eru ríkar af hollum fitum og eru fullar af andoxunarefnum sem geta hjálpað við að hægja á öldrun húðarinnar. Þær geta líka bætt heilbrigði heilans og dregið úr líkum á hjartasjúkdómum og krabbameini.
Hinn fullkomni morgunmatur fyrir geislandi húð

Morgunverðarskálin mín er frábær leið til að sameina alla þessa kosti í eina máltíð. Hér er uppskriftin!

Hinn fullkomni morgunmatur

1 stk lífrænt epli (lífrænt því ég nota hýðið líka)

1-2 dl íslensk bláber (eða erlend)

2 stk sveskjur

1 msk hörfræ

1 msk chiafræ

8 stk möndlur með hýði

1 tsk lion’s mane sveppaduft (má sleppa)

300 ml vatn

2 msk ristuð graskersfræ

2 msk ristuð hampfræ

Handfylli af valhnetum

Skerðu epli, sveskjur og möndlur í bita og bættu þeim í pott ásamt hörfræjum, chiafræjum, fjallagrösum og vatni. Leyfðu að malla án loks við meðalhita í ca. 10 mínútur eða þar til allt er orðið mjúkt og passlega þykkt. Passaðu að hræra í reglulega. Bættu bláberjum og sveppadufti í pottinn, leyfðu að malla í nokkrar sekúndur ef berin eru frosin og settu svo allt í skál. Dreifðu graskerjafræjum, hampfræjum og valhnetum yfir og njóttu!

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir