Í gegnum árin hef ég þróað hinn fullkomna morgunmat því ég trúi því að fegurðin komi innan frá og að gæði þess sem þú lætur ofan í þig sjáist á ástandi húðarinnar. Staðreyndin er sú að ekkert krem getur hjálpað þér ef þú borðar bara óheilnæman mat. Með því að einblína á næringarríka ofurfæðu getur þú borðað leið þína að fallegri húð. Þess vegna geri ég þessa einföldu og hollu morgunverðarskál á hverjum degi og ætla að deila uppskriftinni með ykkur. Hún er tilbúin á 5 mínútum!
Hvers vegna veitir þessi ofurfæða fallega húð?
Þessi uppskrift er algjört kraftaverk fyrir húðina því hún inniheldur helling af næringarefnum sem stuðla að heilbrigðari húð. Hnetur og fræ innihalda heilbrigða fitu sem gefur orku og hjálpar þér að taka upp næringarefni. Epli og ber eru gómsæt og vítamínrík svo þú getur borðað þetta í morgunmat og vitað að það er gott fyrir þig.
Bláber í morgunmat
Aðalhráefnið er bláber, sem er ein besta uppspretta andoxunarefna sem til er. Þau innihalda mikið af C-vítamíni, sem gerir þau góð fyrir húðina. Þar að auki eru þau bólgueyðandi sem er mikilvægt þegar glímt er við húðsjúkdóma á borð við bólur og rósroða. Ég tíni mín eigin bláber á haustin og frysti þau, en að sjálfsögðu er líka hægt að kaupa úr búð – svo lengi sem þau eru annað hvort íslensk eða lífræn. Ástæðan fyrir því að ég kýs lífræn bláber (og lífrænan mat almennt) er sú að ólífræn bláber geta innihaldið skaðleg rotvarnarefni. Hér er mynd af íslenskum bláberjum (ég borðaði þau eftir á og þau voru gómsæt!)

Ljómandi epli
Epli innihalda mikilvæg næringarefni fyrir húðina. Þau innihalda A-vítamín í litlu magni og mikið af C-vítamíni, sem er gagnlegt fyrir húðina. Þar að auki eru þau rakagefandi því þau hafa hátt vatnsinnihald.

Kínverskar döðlur (jujube) eru bólgueyðandi
Jujube ávöxtur eða kínversk daðla er lítill, kringlóttur ávöxtur sem er sætur og seigur. Hann er ríkur af C-vítamíni og andoxunarefnum, sem gera hann frábæran fyrir húðina. Safi úr ávextinum er notaður útvortis til að meðhöndla ertingu og bólgur, en hægt er að neyta hans fyrir sömu áhrif. Þess vegna er hann fullkomið hráefni fyrir morgunverðarskálina mína. Jujube fæst í gjarnan í búðum sem selja asískt hráefni en ég kaupi hann í Dai Phat Asian Supermarket, Faxafeni 14, Reykjavík eða Fiska.is, Nýbýlavegi 6, Kópavogi.

Hnetur og fræ eru ofurfæði
- Hnetur og fræ eru frábær leið til að bæta hollum fitum í mataræðið þitt. Graskersfræ eru rík af ómega-3 og ómega-6 fitusýrum og innihalda líka mikið af sinki sem er bólgueyðandi. Þess vegna geta graskersfræ hjálpað við að meðhöndla roða og ör eftir bólur.
- Sólblómafræ eru rík af E-vítamíni sem er bólgueyðandi og nauðsynlegt til að framleiða kollagen. Þess vegna geta sólblómafræ hjálpað þér að viðhalda unglegum ljóma.
- Hampfræ eru góð uppspretta ómega-3 fitusýra og eru rík af E-vítamíni og magnesíum.
- Valhnetur eru ríkar af hollum fitum og eru fullar af andoxunarefnum sem geta hjálpað við að hægja á öldrun húðarinnar. Þær geta líka bætt heilbrigði heilans og dregið úr líkum á hjartasjúkdómum og krabbameini.

Morgunverðarskálin mín er frábær leið til að sameina alla þessa kosti í eina máltíð. Hér er uppskriftin!
Hinn fullkomni morgunmatur
1-2 lífræn epli (lífræn því ég nota hýðið líka)
1-2 dl íslensk bláber (eða lífræn erlend)
6 kínverskar döðlur (jujube) án steins
1 msk ristuð graskersfræ
1 msk ristuð sólblómafræ
2 msk ristuð hampfræ
Handfylli af valhnetum
Ég mæli með að leggja kínversku döðlurnar í bleyti yfir nótt með því að setja þær í skál með 1,5 dl af vatni. Daginn eftir sker ég döðlurnar og eplin í bita og bæti þeim í pott með vatninu sem döðlurnar lágu í. Ef þú gleymir að leggja þær í bleyti geturðu komist upp með að sjóða þær einfaldlega með eplunum og vatninu. Leyfið að malla án loks við lágan hita í 5 mínútur eða þar til allt er orðið mjúkt. Bættu bláberjum í pottinn, leyfðu að malla í nokkrar sekúndur ef þau eru frosin og settu svo allt í skál. Sáldraðu fræjunum og valhnetunum yfir og njóttu!
Mjög góð grein. Ég þarf hins vegar að passa upp á kílóin. Eru ekki margar kalóríur í þessum morgunmat?
Hvar færðu lífræn bláber.
Kveðja
Líney
Takk kærlega! Ég veit ekki hvað það eru margar kalóríur í þessum morgunmat, ég tel þær aldrei og er ekki hlynnt þeirri hugmyndafræði. Ég get hinsvegar sagt þér að ég er sjálf búin að borða þennan morgunmat í marga mánuði og hef ekki fitnað um eitt einasta gramm!!! Ég tíni bláberin sjálf sem ég nota en þú getur keypt frosin íslensk bláber í búðum (hef t.d. séð þau í Fjarðarkaupum, Melabúðinni og Nettó) og þau þurfa ekki að vera lífrænt vottuð. Erlend lífrænt vottuð bláber hafa stundum fengist í Costco og mig minnir að ég hafi séð þau líka frosin í Krónunni, Melabúðinni og Nettó en vonandi fást þau á fleiri stöðum. Ég mæli hinsvegar miklu frekar með íslenskum berjum sem fást frosin allan ársins hring núorðið. Bkv, Anna Rósa
Einstaklega froðleg og skemmtileg grein. Morgunmaturinn samansafn af hollustu en af hverju að sjoða eplin? Ma ekki nota þau hra og jafnvel setja þetta allt i blandara? Innilegar þakkir.
Bestu þakkir
Guðrun
Takk kærlega! Það kemur til af ýmsu, mér hafa alltaf þótt soðin epli einstaklega góð og soðin epli eru auðveldari fyrir meltinguna en stór hluti af sjúklingum hjá mér er með viðkvæma meltingu. Ég er líka hrifin af elduðum morgunmat, sérstaklega á veturnar en ég er lítið hrifin af því að setja mat í blandara. Meltingin hefst við það að tyggja og því vil ég frekar eldaðan mat sem þarf að tyggja heldur en drekka. Eins held ég að þessi uppskrift yrði ekkert sérstaklega góð með hráum eplum og rauðar döðlur eru líka mun betri og auðmeltanlegri soðnar (þær eru ekkert sérstaklega líkar venjulegum döðlum og mun minna sætari). Bkv, Anna Rósa
Er ekki verið að sjòða öll gòðu vìtamìnin ùr hràefnunum?
Þau eru að einhverju leyti soðin úr eplunum en bláberin er bara hituð í örstutta stund seinast og missa því ekki mikið af vítamínum en þau eru sérstaklega rík af þeim.