Krækiber hafa frá ómunatíð verið notuð í matargerð á norðlægum slóðum. Lengi vel var það ómissandi hluti af haustverkunum á Íslandi að tína ber og búa til krækiberjasaft – og hjá mörgum er það enn svo. Krækilyng hefur einnig verið notað sem eldsneyti, hænsnafóður, til að brugga vín og lita band. Það var áður fyrr líka kallað lúsalyng og var það trú manna að það eyddi flóm og annarri óværu ef það var haft undir sængum. Hvorki krækilyngið né krækiberin eru núorðið mikið notuð í vestrænum grasalækningum.

Hvernig nýttu frumbyggjar krækiber?

Frumbyggjar Norður-Ameríku og Inúítar nýttu krækiber mikið til matar og soðin eða þurrkuð ber til að stemma niðurgang líkt og hérlendis. Þeir notuðu einnig krækilyng til lækninga; seyði af þeim þótti gott sem vatnslosandi, hitalækkandi og við niðurgangi, líkt og berin. Seyði af lynginu var líka notað við kvefi og nýrnakvillum og ræturnar í augnskol.

Krækiber eru góð fyrir meltinguna

Vel þekkt er að soðin og þurrkuð ber eru notuð gegn niðurgangi, sérstaklega hjá börnum, og lyngið hefur einnig verið notað í þeim tilgangi. Fersk ber geta hins vegar haft hægðalosandi áhrif, sér í lagi ef mikið er borðað af þeim í einu. Krækiber eru líka mjög trefjarík en trefjar eru nauðsynlegar fyrir eðlilega meltingu.

Þau hafa andoxandi áhrif

Krækiber eru afar auðug af vítamínum og sér í lagi eru þau  rík af C-vítamíni. Þau innihalda hátt hlutfall af andoxunarefnum en þau geta hindrað myndun skaðlegra sindurefna í líkamnum. Þessi sindurefni tengjast hrörnun og því hvernig ákveðnir sjúkdómar þróast í líkamanum, s.s. krabbamein. Andoxunarefni eru talin styrkja ónæmiskerfið og minnka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Íslenzk grasafræði 1830 – Oddur Jónsson Hjaltalín

„Ber urtarinnar eru kælandi, og lítið samandragandi. Lögur berjanna seyddr er því góðr móti lífsýki, séu af honum teknir 2 matspænir í senn, hvörn annan tíma. Mauk tilbúið af berjunum, blandað með vatni, er góður drykkr móti þorsta og hita landfarsóttar-sjúkra.“

Krækiber eru góð við blóðleysi

Krækiberin eru járnrík og þykir krækiberjasaft góð við blóðleysi en löng hefð er fyrir þeirri notkun hérlendis.

Þau eru frábær fyrir húðina

Krækiber eru vítamínrík og innihalda hátt hlutfall af andoxunarefnum en það er vel þekkt að andoxunarefni draga úr fínum línum og merkjum öldrunar. Ég mæli eindregið með því að þú borðir íslensk krækiber og bláber á hverjum degi, það er fátt betra fyrir húðina og heilsuna. Það þarf hinsvegar líka að vernda húðina útvortis og þá mæli ég með rakagefandi tilboðspakkanum mínum sem inniheldur dagkrem og 24 stunda krem sem eru vinsælustu kremin mín.

 • Sale!

  Pakkatilboð – rakagefandi

  Original price was: 17.480 kr..Current price is: 15.990 kr..
  Setja í körfu Skoða

Hrásaft

Krækiberjasaft úr pressuðum krækiberjum er kölluð hrásaft. Pressa má krækiberin í hakkavél eða safapressu. Best er að setja bleiugas í sigti til að ná hratinu og vinda vel til að ná sem mestum vökva úr því. Hrásaftina er má síðan setja í flöskur og frysta án þess að nota nokkur sætuefni. Líka er snjallt að setja hrásaftina í klakapoka og frysta.

Krækiberjasaft

Ekta krækiberjasaft

 • 1 líter af hrásaft
 • 400–500 g af sykri eða hrásykri

Setjið hrásaft og sykur í pott og hitið að suðu, eða þar til sykurinn leysist upp. Látið kólna aðeins og setjið á sótthreinsaðar glerflöskur. Geymist í 6–12 mánuði. Nota má minna af sykri en þá minnkar geymsluþolið.

Krækiberjasaft úr hratinu

Hratið sem kemur þegar hrásaftin er pressuð úr krækiberjum er líka tilvalið í saft. 350 g af vel undnu hrati eru sett í pott ásamt 1 l af vatni. Soðið í 20 mínútur, látið kólna og hratið síað frá. Síðan er sama uppskrift notuð og þegar gerð er krækiberjasaft úr hrásaft.

Rannsóknir á krækiberjum

 • Nýleg rannsókn í Japan leiddi í ljós að krækiber innihalda 13 tegundir andoxunarefna, samtals 41,8 mg/g, eða meira en mörg önnur ber og þykja krækiberin hafa sterka andoxunarvirkni. Einnig eru taldar líkur á því að andoxunaráhrif krækiberja geti minnkað hættu á langvinnum sjúkdómum.1,2
 • Krækiberjalyng sýndi hamlandi áhrif á berklabakteríuna Mycobacterium tuberculosis.3,6
 • Í kanadískri rannsókn kom fram að tinktúra úr krækilyngi hafði sveppadrepandi áhrif.4
 • Krækiberjasafi þótti sýna fram á mögulega hamlandi áhrif á pneumókokka (Streptococcus pneumoniae) en þeir valda m.a. lungna-, heilahimnu- og eyrnabólgu.5
 • Í íslenskri rannsókn hafa bæði krækilyng og ber sýnt bakteríuhemjandi virkni, m.a. gegn ákveðnum tegundum staphylokokka, en þekkt er að slíkar bakteríur geta myndað ónæmi gegn sýklalyfjum.7
 1. Kim KC, Kang KAfl. Risk reduction of ethyl acetate fraction of Empetrum nigrum var. japonicum via antioxidant properties against hydrogen peroxide-induced cell damage. J Toxicol Environ Health A. 2009; 72(21-22):1499-508.
 2. Ogawa K, Sakakibara Hfl. Anthocyanin composition and antioxidant activity of the Crowberry (Empetrum nigrum) and other berries. J Agric Food Chem. 2008 Jun 25; 56(12):4457-62. Vefútg. 2008 Jun 4.
 3. Gordien AY, Gray AIfl. Activity of Scottish plant, lichen and fungal endophyte extracts against Mycobacterium aurum and Mycobacterium tuberculosis. Phytother Res. 2010 May; 24(5):692-8.
 4. McCutcheon AR, Ellis SMfl. Antifungal screening of medicinal plants of British Columbian native peoples. J Ethnopharmacol. 1994 Dec; 44(3):157-69.
 5. Huttunen S, Toivanen Mfl. Inhibition Activity of Wild Berry Juice Fractions against Streptococcus pneumoniae Binding to Human Bronchial Cells. Phytother Res. 2010 Jul 12.
 6. McCutcheon; R. W. Stokes o.fl. Towers Anti-Mycobacterial Screening of British Columbian Medicinal Plants Pharmaceutical Biology, Volume 35, Issue 2 April 1997, 77-83.
 7. Gunnarsdóttir R, Hilmarsdóttir I o.fl. Bakteríuhemjandi efni úr krækilyngi. Tólfta ráðstefna um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands. Reykjavík, 4.-5. janúar 2005. Læknablaðið 90 (fylgirit 50, bls. 98) 2004.

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir