Blóðberg er einstaklega góð náttúruleg lausn gegn bólum ásamt því að hafa góð áhrif á heilsuna. Það er náskylt garðablóðbergi T. vulgaris, öðru nafni timjan, sem á sér afar langa sögu sem lækninga- og kryddjurt. Garðablóðberg hefur verið rannsakað mjög mikið og m.a. sýnt jákvæða virkni gegn bólum. Virkni blóðbergs og garðablóðbergs þykir mjög svipuð, en blóðberg hefur alla tíð verið vinsæl te- og kryddjurt hérlendis.

Hvernig ég nota blóðberg

Mér finnst sérstaklega gaman að vinna með ferskt blóðberg því lyktin er svo góð. Ég bý til tinktúru (jurtir í alkóhóli) úr fersku blóðbergi sem þýðir að ég legg blóðberg í alkóhól sama dag og ég tíni það. Ég tíni sjálf allar íslensku jurtirnar sem ég nota í vörurnar mínar. Síðan blanda ég blóðbergstinktúrunni við vallhumal og morgunfrú svo úr verður bóluhreinsirinn sem er langvinsælasta varan mín.

  • Latneskt heiti: Thymus praecox.
  • Nýttir hlutar: blöð og blóm.
  • Áhrif: bakteríu- og sveppadrepandi, græðandi, bólgueyðandi, krampastillandi, verk- og vindeyðandi, hóstastillandi, slímlosandi, vatnslosandi, örvar tíðablæðingar.
  • Notkun: bólur, sár, kvef og flensa, hálsbólga, hósti, astmi, bronkítis, eyrnabólga, tannholdsbólga, ristilkrampi, uppþemba, túrverkir, vöðvabólga.

Náttúruleg lausn gegn bólum

Blóðberg hefur sterk bakteríu- og sveppadrepandi áhrif ásamt því að vera bólgueyðandi, allt eru þetta áhrif sem eru sérstaklega góð til að draga úr bólum og fílapenslum. Rannsóknir á garðablóðbergi sem er náskylt blóðbergi hafa sýnt fram á að það dregur meira úr bólum en stöðluð kemísk bólukrem. Ég nota bæði tinktúru úr fersku blóðbergi og garðablóðbergi í bóluhreinsinn minn en þúsundir íslendinga hafa haft góða reynslu af honum í meira en áratug.

  • Sale!

    Pakkatilboð – bólur

    11.990 kr.
    Setja í körfu Skoða

Blóðberg gegn sýkingum

Blóðberg hefur öldum saman verið notað til að vinna bug á kvefi, flensu, hálsbólgu, hósta, astma og berkjubólgu. Það bæði losar um slím í öndunarvegi og þurrkar það upp og er því líka gott við stíflum í nefi og ennisholubólgum og er að auki notað við eyrnabólgum, bæði til áburðar og inntöku. Það þykir líka gott sem skol við tannholds- og hálsbólgu og útvortis til að græða og sótthreinsa sár.

Blóðberg bætir meltinguna

Það er áhrifaríkt við magakveisum, vindgangi og uppþembu og hefur jafnframt verið notað sem ormahreinsandi. Ég nota það sérstaklega í blöndur gegn uppþembu og vindgangi í ráðgjöfinni hjá mér.

Jurt fyrir konur

Blóðberg þykir gott við túrverkjum, seinkun á blæðingum og útvortis gegn bólgum í brjóstum, útferð og sveppasýkingu í leggöngum.

Grasnytjar frá 1783

„Þessi jurt hefur ágætan kraft til að styrkja sinar. Hverslags vín, sem á þessari jurt hefur staðið nokkra stund og síðan drukkið, læknar sinadrátt, það sama læknar og kvef, hreinsar og styrkir höfuð, þynnir blóð, læknar uppþembing og harðlífi þeirra manna, sem etið hafa mikið af hörðum mat. Það vermir kaldan maga og styrkir hann. Dúkur, í þessu víni vættur, og við lagður höfuð manns, bætir öngvit og svima, höfuðverk og hettusótt. Seyði af þessari jurt, sem te brúkað, er gott við hósta, læknar ölsýki þeirra manna, að morgni drukkið, sem ofbrúkað höfðu vín að kvöldi. Það sama örvar svita og er gott brjóstveikum mönnum. […] Blóðberg, marið og lagt við gagnaugu, eyðir höfuðverk og bætir svefnleysi.“ – Björn Halldórsson, Grasnytjar 1783

Rannsóknir

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar í tilraunaglasi þar sem sýnt hefur verið fram á andoxunaráhrif blóðbergs1-4 og það drepur einnig Bacillus subtilis, Staphylococcus aureus og fleiri bakteríur5,6 auk þess sem það er skordýraeyðandi.7 Bakteríudrepandi áhrif blóðbergs komu einnig í ljós í rannsókn á geymsluþoli ferskfisks. Ferskur fiskur sem geymdur var á ís með blóðbergi, í stað íss úr vatni eingöngu, reyndist hafa um 15–20 dögum lengra geymsluþol.8

  1. Komes D, Belščak-Cvitanović A et al. Phenolic composition and antioxidant properties of some traditionally used medicinal plants affected by the extraction time and hydrolysis. Phytochem Anal. 2010 Sep 16. [Previous Epub.]
  2. Orhan I, Senol FS et al. Acetylcholinesterase inhibitory and antioxidant properties of Cyclotrichium niveum, Thymus praecox subsp. caucasicus var. caucasicus, Echinacea purpurea and E. pallida. Food Chem Toxicol. 2009 Jun; 47(6):1304-10. Epub. 2009 Mar 12.
  3. Topal U, Sasaki M et al. Chemical compositions and antioxidant properties of essential oils from nine species of Turkish plants obtained by supercritical carbon dioxide extraction and steam distillation. Int J Food Sci Nutr. 2008 Nov-Dec; 59(7-8):619-34.
  4. Kulisić T, Krisko A et al. The effects of essential oils and aqueous tea infusions of oregano (Origanum vulgare L. spp. hirtum), thyme (Thymus vulgaris L.) and wild thyme (Thymus serpyllum L.) on the copper-induced oxidation of human low-density lipoproteins. Int J Food Sci Nutr. 2007 Mar; 58(2):87-93.
  5. Alzoreky NS, Nakahara K. Antibacterial activity of extracts from some edible plants commonly consumed in Asia. Int J Food Microbiol. 2003 Feb 15; 80(3):223-30.
  6. Rasooli I, Mirmostafa SA. Antibacterial properties of Thymus pubescens and Thymus serpyllum essential oils. 2002 Jun; 73(3):244-50.
  7. Isman MB, Wan AJ, Passreiter CM. Insecticidal activity of essential oils to the tobacco cutworm, Spodoptera litura. 2001 Jan; 72(1):65-8.
  8. Oral N, Gülmez M, Vatansever L et al. Application of antimicrobial ice for extending shelf life of fish. J Food Prot. 2008 Jan; 71(1):218-22.

Er öruggt að nota blóðberg?

Ég mæli ekki með notkun blóðbergs á meðgöngu.

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir