Ég hef alla tíð verið ákaflega hrifin af hverskyns eplakökum og setti mér því það markmið að búa til bestu eplakökuna! Ég er hinsvegar lítið fyrir það að baka kökur og því var nauðsynlegt að þessi eplakaka væri svo einföld að það væri erfitt að klúðra henni. Svo fannst mér líka nauðsynlegt að hafa hana glútenlausa því margir sjúklingar hjá mér þola illa glúten. Á endanum varð til epla crumble en ekki hefðbundin eplakaka en nógu mikið af eplum og slatti af bláberjum var líka skilyrði. Hingað til hefur þessi eplakaka gert stormandi lukku hjá gestum og því er hún ennþá eina kakan sem ég kann að baka. En best er hún!

Epli

Epli eru full af andoxunarefnum og innihalda bæði A-vítamín og C-vítamín, sem gagnast húðinni vel. Þar að auki er vatnsinnihald epla hátt, sem gerir þau rakagefandi.

Græn epli

Bláber

Bláber eru ekki bara bragðgóð, heldur líka meinholl. Þau eru stútfull af andoxunarefnum sem styrkja ónæmiskerfið og minnka hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Þar að auki eru þau bólgueyðandi, auðug af vítamínum, góð fyrir sjónina og meltinguna og svo gæti ég lengi talið. Bláber hafa verið notuð til lækninga í a.m.k. þúsund ár. Hér getur þú lesið þér meira til um bláber fyrir heilsuna.

Bláber

Hafrar

Hafrar eru glútenlausir, trefjaríkir, og auðugir af mikilvægum vítamínum og andoxunarefnum. Þeir innihalda mikið af beta-glúkan sem er tegund af uppleysanlegum trefjum. Þannig geta hafrar lækkað blóðsykur, stuðlað að heilbrigðri magaflóru og haft jákvæð áhrif á kólesteról.

Hafrar

Möndlur

Möndlur eru afar næringarríkar, þær innihalda holla fitu, eru fullar af andoxunarefnum, og eru frábær uppspretta E-vítamíns. Þær eru ríkar af magnesíum, sem getur lækkað blóðþrýsting. Þær eru próteinríkar og trefjaríkar en innihalda lítið af kolvetnum.

Möndlur

Kanill

Kanill er þekktur fyrir að lækka blóðsykur og getur haft jákvæð áhrif á sykursýki. Hann inniheldur hátt hlutfall af andoxunarefnum og hefur bólgueyðandi áhrif. Kanill hefur frá örófi alda þótt nytsamlegur gegn kvefi og flensum og hann er afar góður við meltingartruflunum á borð við ristilkrampa, niðurgangi og ógleði. Þar að auki hafa rannsóknir sýnt fram á að kanill geti haft hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfrumna. Lestu meira um áhrif kanils hér.

Ceylon-kanill

Besta eplakakan með bláberjum

  • 3-4 stór og súr græn epli
  • 1-2 dl bláber
  • kanilsykur
  • 100 g smjör
  • 3 dl möndluflögur
  • 3 dl grófar hafraflögur
  • 2.5 dl púðursykur

Afhýðið eplin og skerið í þunna báta. Smyrjið eldfast mót (um 15 x 25 cm) með jómfrúarólífuolíu eða smjöri. Leggið eplin í mótið og stráið kanilsykri á milli laga, bætið bláberjum út í. Myljið þurrefnin saman við smjörið og dreifið yfir. Setjið álpappír yfir mótið og bakið í 220°C heitum ofni í 30–40 mínútur. Þegar eplin eru orðin alveg mjúk, takið þá álpappírinn af og bakið í örskamma stund í viðbót þar til kakan hefur fengið á sig gullinn lit. Best er að láta kökuna kólna aðeins áður en hún er borin fram og ekki er verra að hafa þeyttan rjóma með.

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir