Ég er á því að steikt fíflablóm og fíflablöð séu besta meðlætið á vorin. Túnfífill vex út um allt og því er auðvelt að tína hann sér til matar. Fíflablöðin eru sneisafull af vítamínum og næringarefnum og því um að gera að borða sem mest af þeim þegar tækifæri gefst. Fífillinn er ekki aðeins góður til matar, hann er einnig öflug lækningajurt.

Ekki bara besta meðlætið

Túnfífill hefur frá örófi alda þótt með bestu vatnslosandi jurtum sem völ er á. Það eru blöð túnfífilsins sem þykja mest vatnslosandi þótt einhver slík virkni sé líka í rótinni. Þegar nýrnastarfsemin örvast tapast kalíum við þvaglát og getur það haft áhrif á starfsemi hjarta. Túnfíflablöðin innihalda hinsvegar hátt hlutfall náttúrulegs kalíums og eru fyrir vikið mjög góður kostur til að auka þvaglosun.

Túnfíflarót hefur aftur á móti örvandi áhrif á starfsemi lifrar og gallblöðru, enda hefur hún lengi verið talin góð við lifrarbólgu, gulu, gallsteinum, uppþembu, vindgangi og harðlífi. Hún hefur líka verið notuð til að styrkja lifrina eftir langvarandi lyfjatöku eða áfengisneyslu. Rótin þykir einnig mjög góð innvortis við húðsjúkdómum og -kvillum á borð við exem, sóríasis og bólur og löng hefð er fyrir því að nota fíflarót við liða-, þvagsýru- og slitgigt.

Bæði blöð og rót hafa örvandi áhrif á gallblöðru og þykja gagnleg til að koma í veg fyrir gallsteina. Túnfíflamjólkin, sem er í stilknum, er gjarnan notuð útvortis til að eyða vörtum. Fersk mjólkin er þá borin á vörtur tvisvar á dag og plástur settur yfir, og sami háttur hafður á daglega í 1–2 vikur.

 • Sale!

  Pakkatilboð – vatnslosandi

  Original price was: 7.980 kr..Current price is: 7.290 kr..
  Setja í körfu Skoða
 • Sale!

  Pakkatilboð – uppþemba og hægðatregða

  Original price was: 12.970 kr..Current price is: 11.990 kr..
  Setja í körfu Skoða

Fíflablómin koma á óvart

Í fyrsta sinn þegar ég steikti fíflablóm varð ég alveg steinhissa, því ég hafði gert ráð fyrir að þau væru álíka beisk á bragðið og fíflablöð. Það kom því þægilega á óvart að steikt fíflablóm reyndust vera tölvert lík sveppum á bragðið og ákaflega ljúffeng. Nóg er af fíflablómum á vorin og því skora ég á ykkur að prófa þessa einföldu uppskrift, en fíflablóm eru tilvalin sem meðlæti með öðrum mat.

Steikt fíflablóm

 • 3 lúkur af fíflablómum með grænum bikarblöðum
 • ósaltað smjör
 • sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Steikið fíflablómin í smjöri á vel heitri pönnu í nokkrar mínútur og kryddið eftir smekk.

Besta meðlætið á vorin

Fíflablöð eru góð með öllu

Steikt fíflablöð eru kjörið meðlæti með flestum réttum, ef ekki öllum. Þau eru ljúffeng og koma á óvart, því get ég lofað. Fíflablöðin eru best nýsprottin á vorin, en það má hinsvegar nota þau til matar allt sumarið. Þau verða aðeins beiskari þegar á líður en góð engu að síður. Fíflablöðin eru full af vítamínum og næringarefnum og því um að gera að borða sem mest af þeim þegar tækifæri gefst.

Steikt fíflablöð

 • 2 bollar túnfíflablöð, söxuð
 • 2/3 dl jómfrúarólífuolía
 • 1/2 ferskur rauður chili, fræhreinsaður
 • 3 hvítlauksrif
 • 2 cm fersk engiferrót

Grófsaxið fíflablöðin. Saxið smátt chili, hvítlauk og engifer. Hitið olíuna á pönnu, setjið allt á hana og steikið stutta stund. Tilvalið sem meðlæti með eggjaköku og fisk- og kjötréttum.

Besta meðlætið á vorin

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir