Ert þú að leita að leiðum til að hreyfa þig meira? Öll erum við meðvituð um mikilvægi þess að hreyfa sig reglulega, en nákvæmlega hvaða ávinningur hlýst af hreyfingu? Líkamar okkar eru hannaðir til að vera virkir, en það þýðir ekki að allir þurfi að stunda sömu líkamsrækt eða lyfta lóðum. Það getur verið mikil kvöð að finna hreyfingu sem hentar, sérstaklega ef þú finnur fyrir pressu til að gera það sama og aðrir en þá skiptir mestu máli að velja skynsamlega. Til eru svo margar mismunandi leiðir til að hreyfa sig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, og þá helst eitthvað ánægjulegt. Lestu áfram til að læra meira!

Af hverju er hreyfing mikilvæg?

Regluleg hreyfing stuðlar að heilbrigðari líkama og veitir orku, ásamt því að minnka líkurnar á ýmsum sjúkdómum og hjálpa okkur að takast á við verkefni daglegs lífs. Þar að auki hefur hreyfing jákvæð áhrif á andlega heilsu: annars vegar losar líkaminn um hormóna sem auka vellíðan og draga úr stressi og kvíða þegar við hreyfum okkur. Hins vegar ýtir hreyfing undir jákvæða sjálfsmynd. Svo má ekki gleyma að hreyfing getur bætt svefninn, sem er undirstaða góðrar heilsu.

Eitthvað er skárra en ekkert

Ég hef alltaf mælt með hreyfingu í ráðgjöfinni hjá mér og í rauninni skiptir ekki öllu máli hvaða hreyfingu þú velur, svo lengi sem þú gerir eitthvað. Þú þarft ekki að fara í ræktina eða byrja í crossfit, göngutúrar eru til dæmis mjög góðir og eru þar að auki öruggari en margt annað þegar kemur að meiðslahættu. Það sem skiptir mestu máli er að finna það sem þér finnst skemmtilegt og stunda það reglulega. Ég mæli með a.m.k 30 – 40 mínútna hreyfingu á hverjum degi en athugaðu að þótt þú hreyfir þig bara í 10 mínútur á hverjum degi þá skiptir það líka miklu máli. Finndu þér hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og sem þú kemur til með að hlakka til á hverjum degi.

1. Göngutúrar

Oft er einfaldleikinn bestur. Það að fara í góðan göngutúr er afar vanmetið, sérstaklega fyrir þá sem glíma við hnjá-, ökkla eða bakvandamál. Göngutúrar bæta almennt hreysti, hjartaheilsu, líkamsstöðu og draga úr líkum á krabbameini. Þeir bæta líka andlega heilsu með því að bæta skap, draga úr þunglyndi og auka sköpunargleði með því að opna fyrir flæði hugmynda. Margt smátt gerir eitt stór og ég hef í mörg ár haft það fyrir sið að leggja ekki alveg við þær búðir sem ég er að fara í, heldur labba spölkorn. Ég mæli sérstaklega með göngutúrum út í náttúrunni og að nýta þá sem hugleiðslu í leiðinni (ekki hanga í símanum þegar þú gengur!). Hreina loftið og fallega landslagið er eitthvað sem okkur ber að vera þakklát fyrir. Þó getur göngufæri verið beinlínis hættulegt yfir vetrartímann þegar hálkuslys eru algeng. Þá er um að gera að nota mannbrodda eða prófa nýja tegund hreyfingar, eins og dans eða jóga.

2. Jóga og tai chi

Jóga er svo mikið meira en bara hreyfing. Samhliða líkamlegu hliðinni vinnurðu að andlegu hliðinni með hugleiðslu og öndunaræfingum. Með reglulegri ástundun bætirðu andlega og líkamlega heilsu, dregur úr kvíða og eflir sjálfstraust. Með því að iðka jóga eykurðu liðleika, sem er mikilvægur þáttur í líkamlegri heilsu, ásamt því að styrkja þig. Þar að auki dregur úr jóga úr bólgum og bætir líkamsstöðu. Ég stundaði jóga í mörg ár hjá þessum hjónum og get heilshugar mælt með þeim. Tai Chi er ekki jafn þekkt og jóga, að minnsta kosti ekki hér á landi, en sami ávinningur hlýst af þessu tvennu. Tai Chi má lýsa sem hugleiðslu með hreyfingu og er upprunalega kínversk bardagalist.

3. Frábærar eldhúsæfingar

Ég rambaði á þennan sniðuga lækni um daginn: Dr Rangan Chatterjee. Hann er mjög vinsæll heimilislæknir (og hlaðvarps- og sjónvarpsstjarna) í Bretlandi sem bjó til auðvelda leið til að bæta styrktaræfingum inn í daglega rútínu. Hann hugsaði með sér að það væri sniðugt að nýta betur þann tíma sem maður bíður í eldhúsinu, til dæmis eftir að suðan komi upp. Smelltu hér til að skoða 5 mínútna eldhúsæfingarnar!

4. Dans

Dans reynir á allan líkamann og er þannig frábær leið til að þjálfa vöðva sem við notum ekki dagsdaglega. Dans bætir minnið og athyglisgáfuna, jafnvægið og samhæfingu, ásamt því að styrkja hjartað. Einn helsti kosturinn við dans er hve aðgengilegur hann er sem líkamsrækt. Þú getur dansað heima hjá þér eða mætt í danstíma með öðrum. Prófaðu þig áfram með mismunandi tónlist og dansstíla.

5. Ræktin

Ræktin er góð til þess að lyfta, hlaupa eða gera æfingar með eigin líkamsþyngd. Lyftingar eru frábærar til að byggja upp vöðvamassa, sem er sérstaklega mikilvægt eftir miðjan aldur. Þó þarf að passa vel að beita sér rétt og byggja þyngdirnar upp hægt og rólega til að fyrirbyggja meiðsli. Lyftingar styrkja bein og liði ásamt því að styrkja hjartað. Ef ræktin virkar fyrir þig skaltu endilega halda áfram. Ef þú ert hins vegar á miðjum aldri með langvarandi sjúkdóm myndi ég ekki endilega byrja hér.

6. Sund

Við erum afar heppin að búa á Íslandi og hafa aðgang að heitum sundlaugum allan ársins hring. Sund reynir á allan líkamann og hentar vel þeim sem geta ekki stundað aðra hreyfingu út af meiðslum eða öðru. Syntu nokkrar ferðir og farðu svo í heita pottinn til að vinna á stressi og slaka á vöðvum.

Uppáhalds hreyfingin mín

Mér finnst gaman að fara í göngutúra og labba reglulega í 30-60 mínútur og oft mikið meira þegar ég er að tína á sumrin. Eins finnst mér mjög gaman að fara í sund og syndi oftast 500 m og ligg svo lengi í heitu pottunum á eftir. Langskemmtilegast finnst mér þó að dansa! Þannig er hægt að hreyfa sig án þess að einu sinni taka eftir því vegna þess að það er svo gaman. Ég stilli einfaldlega á uppáhalds tónlistina mína og dansa svo bara einhvern vegin í stofunni, sem vekur gjarnan töluverða kátínu hjá manninum mínum. Þú getur líka fundið kennslumyndbönd til að fylgja á Youtube. Hér er einn af mörgum playlistum sem ég hlusta á þegar ég dansa. Ég dansa yfirleitt í 40-50 mínútur á dag en ég mæli með að byrja bara á 3 – 4 lögum og þjálfa sig svo upp í lengri danslotur.

Til eru ýmsar leiðir til að hreyfa sig, en þó er mikilvægasta skrefið að velja hreyfingu í stað kyrrsetu við sem flest tækifæri. Labbaðu í stað þess að keyra, taktu stigann í stað lyftunnar eða hjólaðu í vinnuna. Litlar breytingar hafa nefnilega mikil áhrif. Svo er gott að standa reglulega upp frá vinnu og teygja úr sér. Mundu svo næst þegar þú ferð í göngutúr að það er ekki eitthvað lítið!

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir