Project Description

Hrásaft

Krækiberjasaft úr pressuðum krækiberjum er kölluð hrásaft. Pressa má krækiberin í hakkavél eða safapressu. Best er að setja bleiugas í sigti til að ná hratinu og vinda vel til að ná sem mestum vökva úr því. Hrásaftina er má síðan setja í plastflöskur og frysta án þess að nota nokkur sætuefni. Líka er snjallt að setja hrásaftina í klakapoka og frysta.

Krækiberjasaft

1 l af hrásaft

400–500 g af sykri eða hrásykri

Setjið hrásaft og sykur í pott og hitið að suðu, eða þar til sykurinn leysist upp. Látið kólna aðeins og setjið á sótthreinsaðar flöskur. Geymist í 6–12 mánuði. Nota má minna af sykri en þá minnkar geymsluþolið.

Krækiberjasaft úr hratinu

Hratið sem kemur þegar hrásaftin er pressuð úr krækiberjum er líka tilvalið í saft. 350 g af vel undnu hrati eru sett í pott ásamt 1 l af vatni. Soðið í 20 mínútur, látið kólna og hratið síað frá. Síðan er sama uppskrift notuð og þegar gerð er krækiberjasaft úr hrásaft.

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir