Þessa matarmiklu minestrone súpu geri ég alltaf þegar kólna fer í veðri því hún er fullkomin til að ylja sér að innan. Það sem gerir hana jafn góða og raun ber vitni er það hvernig grænmetið er eldað: með því að ofnbaka grænmetið verður það mjúkt og dásamlegt.

Athugaðu að þessi uppskrift (og texti og myndir) er ekki eftir mig, heldur var hún búin til af vegan kokkinum Jolanta Gorzelana sem verður gestabloggari hér af og til. Njóttu! – Anna Rósa

Stútfull af grænmeti

Þessi súpa er stútfull af grænmeti. Ég nota lauk, blaðlauk, kartöflur, kúrbít, tómata, grasker og papríku. Ef þú finnur ekki ferskt grasker, mæli ég með að nota frosið grasker eða skipta því út fyrir sætar kartöflur. Hvað baunirnar varðar, þá elska ég að nota edamame baunir eða hvítar baunir.

Svona ber ég hana fram

Samkvæmt ítalskri hefð á að bera minestrone súpu fram með rifnum osti en ef þú vilt hafa hana vegan geturðu bætt við heimagerðu grænu pestói eða jómfrúarólífuolíu. Ég hef gert þessa súpu ótal sinnum og hún hefur aldrei klikkað þannig ég get næstum lofað að hún muni heppnast vel hjá þér.

Minestrone súpa

Hráefni fyrir 4-6 skammta:

  • 3 meðalstórir tómatar
  • 1 paprika
  • 460 g grasker eða 230 g sætar kartöflur
  • 220 g gulrætur
  • 1 laukur
  • 1 blaðlaukur
  • 250 g kúrbítur
  • 200 g kartöflur
  • 2 msk jómfrúarólífuolía + auka ef þarf
  • 3 sellerístilkar
  • 2 lárviðarlauf
  • 1 msk ferskt timjan (eða 1 tsk þurrkað timjan)
  • 1 hvítlauksgeiri
  • 1750 ml af grænmetissoði
  • ½ tsk túrmerik
  • ¼ múskat
  • salt, pipar og chili eftir smekk
  • 200 g eldaðar edamame baunir
  • 200 g eldaðar cannellini baunir
  • 10 greinar af steinselju
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 120 g grænkál

Berðu fram með:

  • Ferskum basilíkulaufum eða pestói
  • Pasta
  1. Stilltu ofninn á 200°C. Klæddu tvær bökunarplötur með bökunarpappír.
  2. Undirbúðu grænmetið fyrir fyrstu plötuna: þvoðu tómatana, skerðu papríkuna í tvennt og fjarlægðu fræin, skerðu graskerið í 2 cm kubba, flysjaðu gulræturnar og skerðu í ½ cm kubba. Settu allt grænmetið í plötuna og helltu smá ólífuolíu yfir. Bakaðu í 25 mínútur og leggðu til hliðar.
  3. Undirbúðu grænmetið fyrir hina plötuna: flysjaðu laukinn, og blaðlaukinn og skerðu endana af. Skerðu laukinn í tvennt ef hann er stór. Skerðu kúrbítinn í 2 cm kubba. Settu grænmetið á plötuna og bættu salti, pipar og ólífuolíu við. Bakaðu í 5 mínútur og bættu svo við kartöflum sem búið er að flysja og skera í 1 cm kubba. Hrærðu öllu saman og bakaðu í 5 til 8 mínútur í viðbót.
  4. Flysjaðu tómatana og maukaðu þá með lauknum. Flysjaðu papríkuna og skerðu í kubba, skerðu blaðlaukinn í sneiðar.
  5. Settu ólífuolíu í pott og steiktu blaðlaukinn í 3 mínútur. Bættu svo lárviðarlaufum, timjan og pressuðum hvítlauk. Hrærðu af og til og steiktu í 3 til 5 mínútur.
  6. Bættu restinni af grænmetinu við: tómatablöndunni, papríkunni, graskerinu, blaðlauknum, kúrbítnum, gulrótunum og kartöflunum.
  7. Helltu grænmetissoðinu út í og bragðbættu með salti, pipar og chilli. Kryddaðu með túrmeriki og múskati.
  8. Leyfðu suðunni að koma upp, lækkaðu hitann og eldaðu við lágan hita í 15 mínútur.
  9. Bættu baununum út í og eldaðu í 7 til 10 mínútur í viðbót.
  10. Skolaðu grænkálið, fjarlægðu laufin frá stilknum. Skerðu stilkinn í bita og rífðu laufin í minni bita. Steiktu í pönnu með smá olíu. Settu til hliðar.
  11. Þegar súpan er tilbúin skaltu bæta grænkálinu, steinseljunni og sítrónusafanum út í.
  12. Berðu fram með pasta og nokkrum basilíkulaufum eða pestói.

Um höfundinn

Jolanta Gorzelana er vegan kokkur sem heldur úti blogginu Vegan in Chic. Hún er upprunalega pólsk en bjó á Ítalíu í 11 ár þangað til hún flutti til Íslands, þar sem hún er búsett í dag. Jolanta hefur skrifað tvær matreiðslubækur og hefur mikla ástríðu fyrir að leita að innblæstri á ferðalögum og nýta hann svo til að skapa dásamlegar vegan uppskriftir.