Mér finnst ekkert erfitt að svara því hvort kanill sé meinhollur eða skaðlegur því hann er einfaldlega bæði. Fyrst og fremst er kanill einstaklega góð lækningajurt sem auðvelt er að bæta í mat, en löng hefð er fyrir því að nota kanil til lækninga. Hann getur líka verið skaðlegur og þar getur skipt máli hvaða tegund er notuð eins og ég fjalla um í þessari grein.

100 tegundir af kanil

Kanill er unninn úr innri berki kaniltrésins og á rætur sínar að rekja til Sri Lanka og Indlands en eldra heiti Sri Lanka er Ceylon. Kaniltré eru ræktuð í mörgum löndum en fæstir gera sér grein fyrir að til eru yfir 100 tegundir af kanil en aðeins tvær tegundir eru algengar í verslunum. Það eru cassía, eða kínverskur kanill (Cinnamomum cassia – samheiti C. aromaticum), og ceylon kanill (Cinnamomum verum – samheiti C. zeylanicum). Cassía kanill er kryddaðri og sterkari á bragðið og kokkar velja hann oft í ósæta rétti en ceylon kanil er sætari á bragðið og því frekar notaður í kökur og eftirrétti.

Ceylon kanill eða cassía kanill?

Ceylon kanill er oft kallaður „true cinnamon“ á ensku, eða hinn eini sanni kanill, en þar er vísað til latneska heitisins verum. Í Bretlandi og Ástralíu er ekki leyfilegt að selja kanil undir heitinu „cinnamon“ nema þar sé á ferðinni ceylon kanill, aðrar tegundir af kanil eru einfaldega kallaðar cassía. Cassía kanill er sú tegund sem er langalgengust í verslunum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, en cassía kanill er mikið ódýrari en ceylon kanill sem getur verið allt að þrefalt dýrari. Auðvelt er að sjá um hvora tegundina er að ræða séu kanilstangirnar skoðaðar. Ceylon kanill er ljósari, marglagskiptur og auðvelt er að mylja stöngina með handafli. Cassía kanilstangir eru hinsvegar dekkri, ekki lagskiptar og það harðar að ekki er möguleiki að mylja þær með handafli.

Ceylon kanill

Ceylon kanill

Cassía kanill

Cassía kanill

Lækningarmáttur kanils

Löng og mikil hefð er fyrir notkun bæði cassía og ceylon kanils til lækninga en virknin er talin afar svipuð. Cassía kanill er hefðbundið notaður til lækninga í Kína en ceylon kanill á Vesturlöndum. Í grasalækningum er sjaldnast unnið með eina jurt í einu heldur er nokkrum tegundum jurta blandað saman. Þetta á sérstaklega við um kanil því afar fátítt er að hann sé gefinn innvortis einn og sér í hefðbundnum grasalækningum, í Kína er t.d. hefð fyrir því að blanda kanil saman við engifer og lakkrísrót. Kanill hefur komist í tísku undanfarið og verið vinsælt rannsóknarefni hjá vísindamönnum og gjarnan styðja þessar rannsóknir við hefðbundna notkun kanils til lækninga.

Kanill hefur jákvæð áhrif á blóðið

Kanill er einna þekktastur núorðið fyrir að lækka blóðsykur, en margar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif hans á sykursýki. Ef þú ert með insúlínháða sykursýki og vilt taka kanil þarftu að gera það í samráði við fagfólk svo að insúlínskammturinn sé í réttu jafnvægi. Einn af fylgifiskum sykursýki eru langvarandi sveppasýkingar, en það vill svo vel til að kanill er líka sveppadrepandi og getur því haft jákvæð áhrif á þær. Kanill lækkar líka kólesteról í blóði og er blóðþynnandi og því er ekki ráðlegt að taka stóra skammta af honum á sama tíma og blóðþynnandi lyf eru tekin.

Hann hefur bólgueyðandi og andoxandi áhrif

Andoxunarefni, eða þráavarnarefni, eru efni sem geta hindrað eða hægt á oxun annarra efna. Við oxun myndast oft svokölluð sindurefni (free radicals) sem geta bæði valdið skaða í lifandi frumum eða skemmt matvæli. Andoxunarefni draga úr skaðlegum áhrifum sindurefna ásamt því að vera bólgueyðandi. Kanill inniheldur mjög hátt hlutfall af andoxunarefnum, sem styrkja ónæmiskerfið og minnka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum. Rannsóknir hafa t.d. sýnt að kanill hefur bólgueyðandi áhrif á bólgu- og gigtarsjúkdóma.

Kanill getur minnkað líkur á krabbameini

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að kanill hafi hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfruma. Enn sem komið er hafa þessar rannsóknir eingöngu verið gerðar í tilraunaglösum og á dýrum en ekki á mönnum.

Hann er góður við kvefi og flensu

Kanill er bakteríu- og vírusdrepandi en hann hefur um aldir þótt góður gegn kvefpestum og flensum ásamt því að örva blóðrás og verma kaldar hendur og fætur.

Kanill bætir meltinguna

Kanill er styrkjandi fyrir meltingarfærin og ákaflega góður við hverskyns meltingartruflunum, uppþembu, vindgangi, ristilkrampa, ógleði og niðurgangi.

Skiptir máli hvaða tegund af kanil er notuð?

En skiptir það einhverju máli hvaða tegund af kanil er notuð? Samkvæmt Matvælaöryggisstofnun Evrópu þá skiptir það máli. Cassía kanill inniheldur svokölluð kúmarín efni í töluverðu magni en samkvæmt viðmiðum matvælaöryggisstofnunarinnar er þolanleg dagleg inntaka (TDI, tolerable daily intake) fyrir kúmarín 0,1 mg/kg líkamsþyngdar á dag. Þó er talið í lagi að innbyrða þrefalt þetta magn í 1-2 vikur án þess að það valdi skaða. Rannsóknir á einangruðu kúmaríni hafa sýnt að í stórum skömmtum getur það valdið blóðþynningu, lifrarskaða og ýtt undir myndun krabbameinsfrumna. Cassía kanil (og einnig indónesískur og víetnamskur kanil) inniheldur á bilnu 1250-1490 mg/kg af kúmarín en ceylon kanill inniheldur hinsvegar lítið sem ekkert magn af kúmarín. Vert er þó að taka fram að aðrar rannsóknir hafa dregið í efa viðmið á þolanlegri daglegri inntöku á kúmarín á þeim forsendum að um sé að ræða áhrif kúmaríns sem einangrað efni en ekki í neinum tengslum við önnur virk efni í jurtum sem mögulega gætu dregið úr eituráhrifum kúmaríns.

Viðvörun frá matvælastofnun

Í viðvörun frá matvælastofnun í desember 2012 er neytendum bent á að nota cassía kanil í hófi, sér í lagi fyrir börn. Stofnunin brýnir einnig fyrir matvælaframleiðendum sem selja kanil og kanilvörur að nota ekki cassía kanil heldur ceylon kanil sem inniheldur lítið sem ekkert kúmarín. Á Íslandi er nokkuð algengt að ekki sé tekið fram á umbúðum um hvaða kaniltegund er að ræða. Þetta er auðvitað ekkert einsdæmi hér og eins og áður hefur komið fram er cassía kanill langalgengasta tegundin á markaði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum sökum þess hve ódýr hann er. Það verður þó að teljast móðgun við neytendur að ekki komi skýrt fram á umbúðum um hvaða kaniltegund er að ræða.

Ég nota eingöngu ceylon kanil

Ég vel að nota eingöngu lífrænt vottaðan ceylon kanil í alla mína eldamennsku en ég mæli oftast með að nota kanil í mat frekar en í hylkjum. Ef þú vilt hins vegar nota kanil í hylkjum, passaðu þá að þau innihaldi ceylon kanil ferkar en cassía kanil. Hérna er uppskrift að aldeilis góðum morgungraut sem inniheldur kanil og eftir að hafa borðað hann geturðu drukkið þennan bragðgóða og orkugefandi drykk sem inniheldur töluvert magn af kanil.

Varúð

Ég mæli ekki með því að nota kanil í stórum skömmtum samfellt í langan tíma, sérstaklega ekki cassía kanil. Ég mæli heldur ekki með inntöku á cassía né ceylon kanils á meðgöngu, sér í lagi í stórum skömmtum. Ef þú ert með insúlínháða sykursýki og vilt taka kanil þarftu að gera það í samráði við fagfólk. Þar að auki er ekki ráðlegt að taka stóra skammta af kanil á sama tíma og blóðþynnandi lyf eru tekin.

Bandara T, Uluwaduge I, Jansz ER. Bioactivity of cinnamon with special emphasis on diabetes mellitus: a review. Int J Food Sci Nutr. 2012;13:380–386. doi: 10.3109/09637486.2011.627849.

Bin Shan,Yizhong Z CaiMei SunHarold Corke. Antioxidant capacity of 26 spice extracts and characterization of their phenolic constituents. J.Agric Food Chem. 2005 Oct 5;53(20):7749-59. doi: 10.1021/jf051513y.

Botanical Safety Handbook. 2013. AHPA (American Herbal Products Association). 2. útg. CRC Press, Florida, USA.

Davis PA, Yokoyama W. Cinnamon intake lowers fasting blood glucose: meta-analysis. J Med Food. 2011 Sep;14(9):884-9. doi: 10.1089/jmf.2010.0180. Epub 2011 Apr 11.

Farideh ShishehborMahnaz Rezaeyan SafarElham RajaeiMohammad Hosein Haghighizadeh. Cinnamon consumption improves clinical symptoms and inflammatory markers in women with rheumatoid arthtritis. J Am Coll Nutr. 2018 May 3;1-6. doi: 10.1080/07315724.2018.1460733.

Maierean SM, Serban MC, Sahebkar A, et al. The effects of cinnamon supplementation on blood lipid concentrations: A systematic review and meta-analysisJ Clin Lipidol. 2017;11(6):1393-1406. doi:10.1016/j.jacl.2017.08.004

Ranasinghe P, Pigera S, Premakumara GS, Galappaththy P, Constantine GR, Katulanda P. Medicinal properties of ‘true’ cinnamon (Cinnamomum zeylanicum): a systematic review. BMC Complement Altern Med. 2013 Oct 22;13(1):275.

Ranasinghe P, Jayawardana R, Galappaththy P, Constantine GR, de Vas Gunawardana N, Katulanda P. Efficacy and safety of ‘true’ cinnamon (cinnamomum zeylanicum) as a pharmaceutical agent in diabetes: a systematic review and meta-analysis. Diab Med.2012;13:1480–1492. doi: 10.1111/j.1464-5491.2012.03718.x.

Af vef matvælastofnunar: https://www.mast.is/is/um-mast/frettir/frettir/of-mikill-kanill-getur-skaa-heilsu

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir