Þetta kínóasalat er einstaklega ljúffengt, hollt og án glútens. Þessi einfalda uppskrift er í miklu uppáhaldi hjá mér en ég elda hana yfirleitt í hverri viku sem aðalmáltíð. Upphaflega bjó ég uppskriftina til fyrir sjúklinga hjá mér sem voru með glútenóþol. Mér fannst kínóasalatið hinsvegar svo gott að það varð fljótt að fastri rútínu enda bæði einfalt, fljótlegt og ódýrt.

Kínóasalat með miðausturlensku ívafi

Kínóafræ eru prótein- og steinefnarík og grænmetið er stútfullt af bólgueyðandi og andoxandi efnum ásamt vænum skammti af vítamínum. Þetta salat er því sérstaklega hollt og seðjandi. Ég hef alltaf verið hrifin af tabbouleh sem er miðausturlenskt salat með steinselju, myntu, tómötum, gúrkum og búlgurhveiti. Þetta kínóasalat er mín útgáfa af tabboulehsalatinu en töluvert matarmeira og aðalmáltíð frekar en meðlæti. Tabbouleh er vanalega með smávegis af búlgurhveiti (sem inniheldur glúten) en ég nota þess í stað mun meira magn af kínóa sem er glútenlaust. Þetta salat fer vel í maga og er vegan ef tofu/tempeh er notað í staðinn fyrir ostinn. Ég hef oft eldað þetta fyrir vini og hef ekki ennþá fyrirhitt neinn sem finnst það ekki gott. Ef þig langar í eitthvað ljúffengt að drekka eftir þessa máltíð þá mæli ég með þessum orkugefandi heilsudrykk sem er stútfullur af heilsubætandi áhrifum (og bragðast eins og piparkökur!).

Steinselja er meira en bara skraut

Ég dýrka steinselju og nota mikið magn af henni í þetta kínóasalat sem er frábær leið til að borða steinselju reglulega. Steinselja er lækningajurt sem er auðug af vítamínum og steinefnum, sér í lagi járni. Hún er bólgueyðandi og bætir uppþembu, magakrampa, gigt og þvagfærasýkingar. Steinselja er einnig jurt fyrir konur og er notuð til að draga úr túrverkjum og til að örva blæðingar.

Ljúffengt og einfalt kínóasalat

  • 1 bolli (2 dl) heil kínóafræ
  • 2 bollar (4 dl) vatn
  • 1/2 agúrka
  • 10 stk kirsuberjatómatar
  • safi úr hálfri sítrónu
  • 4-5 msk jómfrúarólífuolía
  • 1 búnt/poki flöt steinselja (fjallasteinselja)
  • 1 stk shallotlaukur eða góð sneið af hvítum eða rauðum lauk
  • 150 g halloumiostur eða tofu/tempeh ef vegan
  • olía til steikingar
  • óreganó
  • salt og nýmalaður pipar
  1. Setjið kínóa í pott með vatni og sjóðið með loki á lágum hita í u.þ.b. 15-20 mínútur. Setjð á disk til að kæla.
  2. Skerið smátt allt grænmeti og blandið saman við helminginn af volgum kínóafræum ásamt olíu og sítrónusafa. Smakkið til með salti og pipar.
  3. Skerið halloumiost í u.þ.b. 1/2 cm sneiðar, stráið óreganó á báðar hliðar og steikið á pönnu í olíu á háum hita þar til hann er gullinn. Ef hitinn er nógu hár tekur það örstuttan tíma. Fyrir þá sem eru vegan þá eru steiktar sneiðar af tofu eða tempeh tilvaldar í staðinn fyrir ostinn.

Athugið að ég nota bara helminginn af soðnu kínóafræjunum í þessa uppskrift en ég geri oftast þetta salat líka næsta dag og nota þá afganginn af kínóafræjunum. Ástæðan fyrir því að ég sýð ekki helmingi minna af kínóafræjum er að mér finnst þau soðna illa í því magni og festast frekar við botninn á pottinum.

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir