Það var frekar auðvelt að velja 3 bestu vatnslosandi jurtirnar þrátt fyrir að margar aðrar jurtir hafi líka komið til greina. Þessar þrjár vatnslosandi jurtir hef ég notað óspart í þau 30 ár sem ég hef starfað sem grasalæknir en ég hef margoft séð þær draga úr bjúg og liðverkjum.
1. Fíflablöð
Túnfífill (Taraxicum officinale) hefur frá örófi alda þótt með bestu vatnslosandi jurtum sem völ er á. Það eru blöð túnfífilsins sem þykja mest vatnslosandi þótt einhver slík virkni sé líka í rótinni. Þegar nýrnastarfsemin örvast tapast kalíum við þvaglát og getur það haft áhrif á starfsemi hjarta. Túnfíflablöðin innihalda hinsvegar hátt hlutfall náttúrulegs kalíums og eru fyrir vikið mjög góður kostur til að auka þvaglát. Ég hef alla tíð notað fíflablöð mikið til að draga úr bjúgi og vökvasöfnun, oftast með mjög góðum árangri.
Túnfíflarótin örvar hinsvegar starfsemi lifur og gallblöðru og er einstaklega góð til að bæta meltinguna. Rótin er einnig áhrifarík við margs konar bólgusjúkdómum en ég nota hana mikið í ráðgjöfinni hjá mér þar sem ég er iðulega að fást við erfiða króníska sjúkdóma.
2. Birki
Birkilauf (Betula pubescens) eru mjög góð til lækninga, en þau eru vatnslosandi og bólgueyðandi. Ég hef mikið notað þau við gigtarsjúkdómum, sérstaklega ef þeim fylgir mikil vökvasöfnun. Birkilauf eru einnig góð við blöðrubólgu og öðrum sýkingum í þvagrásarkerfi og eru auk þess notuð gegn nýrnasteinum og hverskyns bjúg. Smelltu ef þú vilt vita meira um birki og hvernig ég vinn úr því.
Í gömlum heimildum um lækningamátt birkis er einnig fjallað um vatnslosandi áhrif þess: „Tré þetta hefir styrkjandi, þvagdrífandi, blóðhreinsandi, samandragandi krapt. Af nýsprottnum og þurkuðum blöðum þess gjörist te.“ – Oddur Jónsson Hjaltalín, Íslenzk grasafræði 1830
3. Brenninetla
Brenninetla (Urtica dioeca) hefur verið vinsæl lækningajurt frá örófi alda en hún hefur ákaflega fjölbreytta verkun. Hún er mjög góð gegn gigtarsjúkdómum, einkum þar sem nýrnastarfsemin er léleg og mikil bjúgmyndun, enda er hún sérstaklega vatnslosandi og bólgueyðandi. Brenninetla þykir líka hreinsandi og er mikið notuð innvortis við húðsjúkdómum. Hún er einnig áhrifarík við ofnæmi, svo sem frjókornaofnæmi, astma, húðútbrotum og kláða. Rót brenninetlu er talin sérlega góð gegn góðkynja stækkun og bólgum í blöðruhálskirtli, sem og einkennum sem af þeim leiðir, svo sem tíðum þvaglátum, næturþvaglátum, sársauka við þvaglát og þvagteppu.
Pakkatilboð með vatnslosandi jurtum
Grasalæknar vinna sjaldan með eina jurt í einu heldur blanda þeir nokkrum tegundum saman. Ein ástæða þess að jurtum er blandað saman er sú að ein jurt getur magnað upp virkni annarrar, eins og sýnt hefur verið fram á með rannsóknum. Ég blanda iðulega 6-8 jurtum saman í svokallaðar tinktúrur en í þeim er búið að vinna virk efni úr jurtunum með því að leysa þau upp í alkóhóli. Í þessum tilboðspakka með vatnslosandi jurtum hef ég blandað saman fíflablöðum, birki og brenninetlu ásamt fleiri jurtum en ég bý til tinktúrurnar úr ferskum jurtum, sama dag og ég tíni þær. Að auki er vatnslosandi teblanda í þessum pakka en reynslan hefur kennt mér að það borgar sig að vinna með tinktúrur og te samhliða til að ná sem mestum árangri.
Hvað finnst þér um þessa grein?