Það var ekki auðvelt að velja 8 bestu jurtirnar til að bæta meltinguna því svo ótal margar lækningajurtir koma til greina. Ég valdi hins vegar þær jurtir sem ég hef notað mest á þeim 30 árum sem ég hef starfað sem grasalæknir, en ég hef enga tölu á því hversu oft ég hef séð þessar jurtir bæta meltinguna.

1. Mjaðjurt

Mjaðjurt (Filipendula ulmaria) er uppáhaldsjurtin mín til að bæta meltinguna og ekki er verra að hún vex í stórum breiðum á Suðurlandi og því auðvelt að tína hana. Hún er bólgueyðandi og verndar og græðir slímhúð maga ásamt því að koma jafnvægi á magasýrur. Ég hef notað hana mjög mikið við brjóstsviða, bakflæði, magaverkjum, magabólgum, magasárum, uppþembu og vindverkjum. Rannsóknir hafa sýnt að hún er bakteríudrepandi og virk gegn bakteríunni Helicobacter pylori sem veldur magabólgum, magasárum og magakrabbameini.

Mjaðjurt

2. Morgunfrú

Það er erfitt að gera upp á milli hvor sé í meira uppáhaldi hjá mér, morgunfrú eða mjaðjurt. Morgunfrú (Calendula officinalis) er bólgueyðandi ásamt því að vera bakteríu-, vírus- og sveppadrepandi og er einstaklega góð gegn bakflæði, háum magasýrum, brjóstsviða, magabólgum og magasárum. Rannsóknir hafa sýnt að morgunfrú er virk gegn bakteríunni Campylobacter jejuni sem veldur niðurgangi. Ég nota morgunfrú og mjaðjurt alltaf saman þegar ég meðhöndla bakflæði og magabólgur.

Morgunfrú

3. Vallhumall

Vallhumall (Achillea millefolium) er ákaflega fjölhæf lækningajurt sem á sér margra alda sögu í grasalækningum. Hann hefur alla tíð verið vinsæl lækningajurt við meltingarsjúkdómum en ég hef oft notað vallhumal gegn bólgum og krömpum í meltingarvegi og til að stöðva niðurgang. Rannsóknir hafa sýnt fram á bakteríudrepandi áhrif hans, t.d. gegn Helicobacter pylori sem ég nefndi áðan.

Vallhumall

4. Regnálmur

Regnálmur (Ulmus rubra) inniheldur slímefni sem eru sérstaklega góð til að græða og vernda slímhúð maga. Löng hefð er fyrir því að nota regnálm við margs konar meltingarkvillum svo sem bakflæði, brjóstsviða, magabólgum, maga- og skeifugarnarsárum, ristilkrampa og hægðatregðu. Ég hef mikið fengist við bakflæði og háar magasýrur í ráðgjöfinni hjá mér og þá nota ég regnálm undantekningarlaust. Ég hef líka persónulega mjög góða reynslu af honum en ég fékk mikið bakflæði seinnipart meðgöngu og þá dugði regnálmur alveg til að halda því niðri þangað til barnið var komið í heiminn og vandamálið leystist af sjálfu sér.

Regnálmur

Pakkatilboð við bakflæði og magabólgum

Grasalæknar vinna sjaldan með eina jurt í einu heldur blanda þeir nokkrum tegundum saman. Ein ástæða þess að jurtum er blandað saman er sú að ein jurt getur magnað upp virkni annarrar, eins og sýnt hefur verið fram á með rannsóknum. Ég blanda iðulega 6-8 jurtum saman í svokallaðar tinktúrur en í þeim er búið að vinna virk efni úr jurtunum með því að leysa þau upp í alkóhóli. Í þessum tilboðspakka gegn bakflæði og magabólgum hef ég blandað saman mjaðjurt, morgunfrú og vallhumli ásamt fleiri jurtum en ég bý til tinktúrurnar úr ferskum jurtum, sama dag og ég tíni þær. Að auki er duft úr regnálmi og magabólgute í þessum pakka en reynslan hefur kennt mér að það borgar sig að vinna með tinktúrur, te og duft samhliða til að ná sem mestum árangri.

  • Sale!

    Pakkatilboð – bakflæði og magabólgur

    Original price was: 16.260 kr..Current price is: 14.990 kr..
    Setja í körfu Skoða

5. Fjallagrös

Fjallagrös (Cetraria islandica) hafa lengi þótt hin besta næring enda auðug af steinefnum og trefjum. Fjallagrös eru sérstök að því leyti að þau innihalda bæði slímefni og beisk efni, sem er sjaldgjæf samsetning í lækningajurtum. Þau þykja því sérstaklega góð við margskonar meltingarkvillum þar sem slímefnin græða og vernda slímhúð maga en beiskjuefnin styrkja og örva meltinguna. Fjallagrös virka vel við uppþembu og hægðatregðu, bakflæði, magabólgum, maga- og skeifugarnarsárum og ristilkrampa. Sýnt hefur verið fram á bakteríudrepandi áhrif fjallagrasa, m.a. gegn Helicobacter pylori.

Fjallagrös

6. Fíflarót

Túnfíflarót (Taraxicum officinale) hefur frá örófi alda þótt góð til að örva starfsemi lifur og gallblöðru, enda hefur hún lengi verið talin áhrifarík gegn uppþemu, vindgangi, hægðatregðu, lifrarbólgu, gulu og gallsteinum. Rótin er einnig mjög góð við margs konar bólgusjúkdómum en ég hef notað hana mikið í ráðgjöfinni hjá mér þar sem ég er iðulega að fást við erfiða króníska sjúkdóma.

Túnfífill

7. Hvönn

Hvönn eða ætihvönn (Angelica archangelica) hefur í aldanna rás verið vinsæl lækningajurt við uppþembu, meltingartregðu, vindgangi og ristilkrampa. Ég bý til tinktúru úr ferskum hvannarfræjum og eins þurrka ég fræin og nota mikið í teblöndur.

Hvönn

8. Triphala

Nú svindla ég svolítið því triphala er ekki nafn á einni jurt heldur heiti á ævafornri blöndu af þremur indverskum ávöxtum í jöfnum hlutföllum. Triphala er einna þekktast fyrir að koma jafnvægi á meltinguna og þá sér í lagi sem hægðalosandi. Ég hef í mörg ár notað triphala fyrir sjúklinga í ráðgjöfinni hjá mér með mjög góðum árangri en þetta er eina staðlaða jurtablandan sem ég vinn með, allt annað blanda ég sjálf.  Ég hef langmest notað triphala sem hægðalosandi samhliða öðrum jurtablöndum sem ég framleiði sjálf en það hefur reynst einstaklega vel gegn uppþembu og hægðatregðu. Triphala er einnig áhrifaríkt gegn meltingartruflunum, háum magasýrum, vindverkjum og ristilkrampa.

Triphala fyrir meltinguna

Pakkatilboð við uppþembu og hægðatregðu

Þetta pakkatilboð gegn uppþembu og hægðatregðu inniheldur þrjár vörur: tinktúruna fjallagrös og fíflarót, triphalatöflur og te við uppþembu. Tinktúran inniheldur, eins og nafnið gefur til kynna, bæði fjallagrös og fíflarót ásamt hvönn og fleiri jurtum. Teblandan inniheldur hvannarfræ og fleiri fræ sem eru góð gegn uppþembu. Tilboðspakkinn inniheldur líka mánaðarskammt af triphalatöflum. Allar vörurnar hreinsa meltinguna og hafa gefist afar vel við uppþembu, hægðatregðu, vindverkjum og ristilkrampa. Mælt er með að taka allar vörurnar samhliða til að reyna að ná sem mestum árangri.

  • Sale!

    Pakkatilboð – uppþemba og hægðatregða

    Original price was: 13.470 kr..Current price is: 12.490 kr..
    Setja í körfu Skoða

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir