Project Description

Þessi kjötsúpa inniheldur mikið af lækningajurtum og grænmeti og í mínum huga er það alvöru kjötsúpa. Í þessa súpu er líka mjög gott að nota skessujurt í staðinn fyrir hvannarblöð eða bæta henni við aukalega. Ef ekki er til hvönn eða skessujurt gefa bæði óreganó og basil mjög gott bragð og ég nota stundum líka smávegis af birkiblöðum.

½ –1 blaðlaukur

6–7 hvítlauksrif

2 cm fersk engiferrót

½ ferskur rauður chili

½ sæt kartafla

2,3 l vatn

1 msk. grænmetiskraftur

2–3 lambalærissneiðar

2 msk. hvannarblöð eða basil/óreganó

1 msk. blóðberg eða garðablóðberg

1 spergilkál eða grænkál

jómfrúarólífuolía

sjávarsalt og svartur pipar

Skerið smátt blaðlauk, hvítlauk, engifer, sæta kartöflu og chili og léttsteikið í olíu í súpupotti. Bætið vatni og grænmetiskrafti út í og látið suðuna koma upp. Skerið lambalærissneiðar í litla bita, hreinsið beinin frá og látið út í pottinn. Léttsteikið kjötbitana í olíu á pönnu, með salti og pipar, og setjið síðan í pottinn. Bætið út í smátt skornum hvannarblöðum og blóðbergi og sjóðið í minnst 40 mínútur en helst í rúman klukkutíma. Bætið út í skornu spergilkáli eða grænkáli þegar u.þ.b. 10 mínútur eru eftir af suðutíma.