Project Description

Mér finnst fátt betra í skammdeginu en að fá mér kryddte ættað frá Indlandi. Það er kallað „Chai-te“ á Vesturlöndum og er til í ótalmörgum útgáfum. Þetta te er alveg sérdeilis kröftugt og manni hlýnar niður í tær við að drekka það. Yfir vetrartímann drekk ég teið nánast á hverjum degi, enda gefur það mér orku og kraft. Yfirleitt fæ ég mér það eftir kvöldmat. Hunangið í því fullnægir sætuþörfinni og nasl seinna um kvöldið verður alger óþarfi. Stundum á ég það til að gera teið töluvert sterkara en í neðangreindri uppskrift og þá verð ég tvöfalt orkumeiri. Þótt ég drekki það á kvöldin heldur það ekki vöku fyrir mér, en einnig er tilvalið að fá sér það á morgnana.

5–6 negulnaglar

6–8 heilar kardimommur

½–1 kanilstöng

4–6 svört piparkorn

4–6 sneiðar af ferskri engiferrót

2-3 ferskar túrmerikrætur, sneiddar

hnífsoddur af rifinni múskathnetu

1 bolli vatn

1–2 tsk. svart te í lausu, t.d. Earl Grey

1 bolli haframjólk eða hrísmjólk

1 tsk. hunang

Myljið kardimommur í mortéli og setjið í pott ásamt öðru kryddi og vatni. Látið sjóða undir loki í ½–1 mínútu. Bætið svörtu tei út í og látið sjóða stutta stund í viðbót. Bætið síðan haframjólk út í og látið suðuna koma upp. Síið, hellið í könnu og bætið hunangi út í. Einnig má nota fjallagrös í staðinn fyrir svart te, en þá eru fjallagrösin sett út í með kryddinu strax í upphafi. Ef ekki er til fersk túrmerikrót þá kemur það ekki að sök, teið er líka gott án hennar!