Besti morgungrauturinn minn inniheldur kínóa með bláberjum og hann er meira að segja glútenlaus. Margir sjúklinga minna eru með glútenóþol þannig að ég geri oft glútenlausar uppskriftir handa þeim. Þessa uppskrift af kínóagraut með bláberjum gerði ég fyrir mörgum árum, svo byrjaði ég að borða hann sjálf og áður en ég vissi af varð hann að mínum uppáhalds morgunmat í mörg ár. Þessi morgunmatur er svo næringarríkur að það þarf ekkert að borða fram að hádegismat. Það er líka tilvalið að fá sér þennan heilsudrykk á eftir grautnum sem gefur húðinni auka ljóma inn í daginn.

Villt íslensk bláber og aðalbláber

Hér á landi er rík hefð fyrir því að tína villt ber á haustin til að eiga yfir veturinn. Þegar ég var barn fór ég í berjamó á hverju hausti og úr varð árleg hefð sem ég held enn í. Ég frysti berin alltaf og nota þau frosin í grautinn minn en ef ég klára þau yfir veturinn nota ég lífræn goji ber í staðinn. Bláber og aðalbláber eru algjör ofurfæða: þau eru stútfull af andoxunarefnum, hafa bólgueyðandi áhrif og eru rík af vítamínum. Ef þú getur ekki tínt eða keypt íslensk bláber þá mæli ég með að þú kaupir lífrænt vottuð bláber því venjuleg bláber innihalda rotvarnarefni sem eru skaðleg.

Bláber

Íslensk bláber, mynd: Erling Ólafsson.

Besti morgungrauturinn með bláberjum

  • 4 msk kínóa
  • ½ – 1 tsk ceylon kanill
  • 3 dl vatn
  • 1 dl bláber eða ½ dl goji ber
  • 1 msk hörfræ
  • ½ – 1 tsk ósaltað smjör (ólífuolía ef vegan)
  • ½ – 1 tsk hrátt hunang (hlynsýróp ef vegan)
  • Salt
  1. Settu kínóa, vatn og hörfræ í skál og leyfðu að liggja í bleyti yfir nótt. Bættu goji berjunum við ef þú ætlar að nota þau í staðinn fyrir bláber. Þú getur líka sleppt því að leggja hráefnin í bleyti og bætt 5 mínútum við eldunartímann í staðinn.
  2. Helltu hráefnunum í pott daginn eftir, bættu kanil og salti og leyfðu að malla við lágan hita án loks í 10 til 15 mínútur.
  3. Bættu loks bláberjunum út í og hitaðu í hálfa mínútu í viðbót.
  4. Helltu grautnum í skál, bættu smjörinu og hunanginu út í og hrærðu.

Mér finnst ekki nauðsynlegt að nota mjólk með þessum graut en ef þér finnst það betra þá mæli ég með plöntumjólk á borð við haframjólk eða möndlumjólk.

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir