Þetta kjúklingabaunasalat er svo ferskt og sumarlegt! Fullkomið sem meðlæti eða léttur aðalréttur. Þegar ég kynntist vegan matargerð fyrst var ég ekki mikill aðdáandi þess að borða kjúklingabaunir heilar: ég notaði þær eingöngu í vegan bollur eða hummus.
Athugaðu að þessi uppskrift (og texti og myndir) er ekki eftir mig, heldur var hún búin til af vegan kokkinum Jolanta Gorzelana sem verður gestabloggari hér af og til. Njóttu! – Anna Rósa
Ég skipti hins vegar um skoðun þegar ég fór í dásamlega ferð til Tyrklands fyrir nokkrum árum. Ég var á litlum veitingastað í Cappadoccia og bað þjóninn um að færa mér eitthvað vegan og hann kom með dásamlegt salat úr kjúklingabaunum, tómötum, alls konar kryddum og ferskum kryddjurtum.
Ég gerði salatið að mínu eigin
Þegar heim var komið var ekki annað í stöðunni en að endurgera salatið, nema ég bætti við ofnbakaðri papríku. Þessi uppskrift er afar einföld og ég myndi segja að erfiðasti parturinn sé að ofnbaka og afhýða papríkuna. Þannig þú þarft ekkert að óttast: ég leiði þig í gegnum ferlið í leiðbeiningunum hér fyrir neðan. Hins vegar, ef þú vilt einfalda þetta skref enn frekar geturðu notað grillaða papríku í krukku sem hægt er að kaupa í flestum matvöruverslunum. Ef þér finnst papríka ekki góð geturðu notað stóra tómata eða ofnbakað eggaldin í staðinn.
Gerðu salatið eftir þínu höfði
Þú getur gert kjúklingabaunasalatið algjörlega eftir þínu höfði. Til dæmis geturðu gert það matarmeira – og hollara – með því að bera það fram ofan á grænu salati eða lauf grænmeti. Svo geturðu alltaf bætt við hráefnum, til dæmis fleiri kryddjurtum, avókadó, kínóa eða ólífum.
Dásamlegt kjúklingabaunasalat (vegan)
Hráefni fyrir 2 – 4 skammta:
480 g af elduðum kjúklingabaunum
2 stórar papríkur
1 laukur
2 msk vínedik (rautt eða hvítt)
10 greinar af steinselju, saxaðar smátt
3 msk af basilíku, saxaðar smátt
3 msk af jómfrúarolífuolíu
2 msk af sítrónu- eða limesafa
1 tsk af hlynsírópi eða öðrum sætugjafa
Engifer, 2 cm langt, fínt rifið (eða ½ tsk af möluðu engifer)
1 tsk cumin duft
½ tsk mulið chili (eða ½ ferskt chili, saxað)
Salt og pipar eftir smekk
- Stilltu ofninn á 200°C. Skerðu papríkurnar í tvennt, fjarlægðu fræin og settu þær í eldfast mót. Bakaðu í 40-50 mínútur og leyfðu þeim að dekkjast. Þær eru tilbúnar þegar brúnirnar eru næstum svartar.
- Skerðu laukinn í sneiðar og sáldraðu 2 msk af ediki yfir. Leyfðu að marinerast í 30 – 40 mín.
- Settu papríkurnar í box eða plastpoka (hýðið losnar betur af í loftþéttu íláti), og flysjaðu þær svo. Þú getur líka pakkað þeim í álpappír til að losa hýðið. Skerðu papríkurnar svo í sneiðar.
- Helltu elduðu kjúklingabaununum í salatskál
- Bættu kryddjurtunum, papríkunni og lauknum út í.
- Blandaðu olíu, sítrónusafa, hlynsírópi, engifer, cumin, chili, salti og pipar saman í bolla. Helltu sósunni í skálina,
- Hrærðu öllu vel saman og berðu svo fram.
Ef ætlunin er ekki að bera salatið strax fram er best að geyma það í ísskáp.
Um höfundinn
Jolanta Gorzelana er vegan kokkur sem heldur úti blogginu Vegan in Chic. Hún er upprunalega pólsk en bjó á Ítalíu í 11 ár þangað til hún flutti til Íslands, þar sem hún er búsett í dag. Jolanta hefur skrifað tvær matreiðslubækur og hefur mikla ástríðu fyrir að leita að innblæstri á ferðalögum og nýta hann svo til að skapa dásamlegar vegan uppskriftir.
Skýr og fræðandi