Ég er þeirrar skoðunar að þeir sem segjast ekki borða salöt hafi hreinlega aldrei fengið gott salat. Í gegnum árin hef ég fullkomnað þá list að gera góð salöt, sem á sama tíma eru holl. Þetta salat inniheldur hráefni sem hafa verið rannsökuð gegn krabbameini og eru full af næringarefnum og vítamínum. Engin ein fæðutegund er nógu öflug til að koma í veg fyrir krabbamein en hollt mataræði kemur þér ansi langt. Mataræði hefur alla jafna mikil áhrif á heilsuna, en það getur skipt sköpum þegar líkamar okkar berjast við sjúkdóma. Einfaldar breytingar á borð við að borða meira grænmmeti geta haft mikil áhrif og þess vegna er þessi uppskrift fullkomin. Hún inniheldur hráefni sem eru holl og geta dregið úr líkum á krabbameini.
Tómatar
Tómatar eru frábær uppspretta A- og C-vítamíns, en þeir innihalda líka andoxunarefnið lýkópen. Lýkópen býr yfir eiginleikum sem hamla gegn vexti krabbameinsfrumna og hefur verið tengt við lækkaðar líkur á blöðruhálskrabbameini. Það hefur líka verið tengt við betri hjartaheilsu, þannig að mataræði sem er ríkt af tómötum gæti hjálpað þér að njóta þessarra kosta.
Gúrkur
Gúrkur innihalda næringarefnið cucurbitacin getur komið í veg fyrir að krabbameinsfrumur fjölgi sér. Þær innihalda líka holl efnasambönd sem kallast lignín sem draga úr ýmsum gerðum krabbameins. Þar að auki búa gúrkur yfir bólgueyðandi eiginleikum. Gúrkur hafa hátt vatnsinnihald og þær innihalda mikið A- og C-vítamín.
Laukur
Laukur inniheldur flavonóíð sem kallast quercetin sem getur hamlað vexti krabbameinsfrumna og ýtt undir frumudauða. Laukur býr yfir bólgueyðandi eiginleikum sem geta hjálpað við að koma í veg fyrir blóðtappa og dregið úr líkum á hjartasjúkdómum.
Steinselja
Ég dýrka steinselju og nota mikið magn af henni í þetta salat sem er frábær leið til að borða steinselju reglulega. Steinselja er lækningajurt sem er auðug af vítamínum og steinefnum, sér í lagi járni og C-vítamíni. Hún inniheldur til dæmis þrefalt meira af C-vítamín en appelsínur. Hún er bólgueyðandi og bætir meltinguna, gigt og þvagfærasýkingar. Steinselja er einnig jurt fyrir konur og er notuð til að draga úr túrverkjum og til að örva blæðingar. Hún inniheldur flavonóíðan myricetin í miklu magni, en sýnt hefur verið fram á að hann geti komið í veg fyrir húðkrabbamein. Steinselja inniheldur rokgjarnar olíur, en rannsóknir á þessum olíum hafa sýnt að þær geta hindrað myndun æxla.
Kóríander
Andoxunarefnin í kóríander geta hægt á vexti krabbameinsfrumna og dregið úr bólgum. Kóríander er ríkt af A-vítamíni, járni og magnesíum og býr yfir sýklaeyðandi eiginleikum. Það er líka ríkt af K-vítamíni sem getur dregið úr líkum á hjartasjúkdómum.
Rauð papríka
Papríkur eru frábær uppspretta trefja og kalíums. Þær eru mjög ríkar af andoxunarefnum – einn skammtur getur veitt þér ráðlagðan dagskammt af A- og C-vítamíni og ríflega það. Rauðar papríkur hafa fengið að þroskast lengur en gular og grænar papríkur og eru þess vegna ríkari af ýmsum næringarefnum. Til dæmis innihalda rauðar papríkur ellefu sinnum meira af beta-karótíni en grænar papríkur.
Kínóa
Heilkorn geta haldið blóðsykrinum í jafnvægi og halda okkur söddum lengur. Kínóa er í rauninni fræ en er flokkað sem heilkorn. Það inniheldur efnasambönd sem geta dregið úr líkum á hjartasjúkdómum og krabbameini. Kínóa er þar að auki ríkt af vítamínum, ómettuðum fitum og próteini. Það er bólgueyðandi, sem gerir það hjálplegt við meðhöndlun ýmissa sjúkdóma.
Sítrónur
Sítrónur eru frábær uppspretta C-vítamíns og þær geta meira að segja komið í veg fyrir nýrnasteina. Þær geta líka bætt upptöku járns og þar af leiðandi verndað gegn blóðleysi. Einhverjar rannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða hvað mest af sítrusávöxtum séu ólíklegri til að fá krabbamein, en þörf er á frekari rannsóknum. Vatnsleysanlegu trefjarnar í sítrónum geta bætt þarmaflóru og lækkað blóðsykur, en best er að borða aldinkjötið til að fá fullan ávinning úr þeim.
Jómfrúarólífuolía
Jómfrúarólífuolía er þekkt fyrir að hafa jákvæð áhrif á hjartaheilsu, en hún getur líka gagnast gegn krabbameini. Hún inniheldur efnasambandið oleocanthal sem er andoxandi, bólgueyðandi og krabbameinsvarnandi. Rannsóknir hafa sýnt að oleocanthal getur hamlað vexti krabbameinsfrumna og ýtt undir frumudauða. Þetta efni finnst eingöngu í jómfrúarólífuolíu þannig að það að bæta ólífuolíu af góðum gæðum í mataræðið gæti gert gæfumuninn.
Bragðgott salat sem bætir heilsuna
- 1 bolli (2 dl) heil kínóafræ
- 2 bollar (4 dl) vatn
- 1 box kirsuberjatómatar (mér finnst piccalo bestir)
- 1/2 gúrka
- 1/2 rauð paprika (fræhreinsuð)
- 1/4 laukur
- 30 g (1 poki) flöt steinselja (fjallasteinselja)
- 15 g kóríander
- 2 msk sítrónusafi ca. úr hálfri sítrónu (lífræn)
- 1 tsk af rifnum sítrónuberki (lífrænn)
- 5 msk jómfrúarólfíuolía (extra virgin)
- 100 g svartar olífur (má sleppa)
- salt og nýmalaður pipar
- Setjið kínóa í pott með vatni og sjóðið með loki á lágum hita í u.þ.b. 15-20 mínútur. Setjð á disk til að kæla.
- Skerið mjög smátt allt grænmeti og blandið saman við helminginn af volgum kínóafræum ásamt olíu og sítrónusafa. Bætið við ólífum. Smakkið til með salti og pipar.
Athugið að ég nota bara helminginn af soðnu kínóafræjunum í þessa uppskrift en ég geri oftast þetta salat líka næsta dag og nota þá afganginn af kínóafræjunum. Ástæðan fyrir því að ég sýð ekki helmingi minna af kínóafræjum er að mér finnst þau soðna illa í því magni og festast frekar við botninn á pottinum.
Mjög gott ,Takk takk
Mjög ahugaverð og upplysandi ❤️🤗 Takk fyrir 🥰
mjög áhugavert og takk fyrir að deila 🥰
mjög áhugavert og takk fyrir að deila 🥰 Ég ætla að prufa þetta salat 😀
Mjög áhugaverð, takk fyrir að deila. Þetta salat verð ég að prófa 🥰