Mér finnst fátt betra í skammdeginu en að fá mér heilsudrykk ættaðan frá Indlandi. Heilsudrykkurinn er kallaður „Chai-te“ á Vesturlöndum og er til í ótalmörgum útgáfum. Þetta te er alveg sérdeilis kröftugt og manni hlýnar niður í tær við að drekka það. Yfir vetrartímann drekk ég teið nánast á hverjum degi, enda gefur það mér orku og kraft. Hunangið í því fullnægir sætuþörfinni og nasl seinna um kvöldið verður alger óþarfi. Mér finnst piparkökur afskaplega góðar en þetta chai-te bragðast eiginlega alveg eins og piparkökur þannig að það er ekki skrýtið að ég sé hrifin af því.
Sagan á bakvið hann
Það er engin tilviljun að ég kalla þetta chai-te besta heilsudrykkinn til að gefa þér orku því það er mín eigin reynsla. Ég bjó til uppskriftina af þessu tei fyrir mörgum árum síðan þegar ég skrifaði fyrstu bókina mína. Ég hafði bara tíma til að skrifa eftir kvöldmat og þá var ég að vonum þreytt eftir daginn. Þetta chai-te gerði gæfumuninn, það hressti mig við og gaf mér aukna orku án þess að koma í veg fyrir svefn. Það tók mig þrjú ár að skrifa bókina á kvöldin og ég drakk teið samviskusamlega á hverju kvöldi. Án þessa kraftmikla heilsudrykks hefðu bókarskrifin án efa tekið mikið lengri tíma.
Viltu fá geislandi húð?
Það er sterk tenging á milli meltingar og húðar en það hafa grasalæknar vitað frá örófi alda. Þegar ég bý til sérblandaðar jurtablöndur fyrir húðsjúkdóma í ráðgjöfinni hjá mér nota ég iðulega jurtir sem eru góðar fyrir meltinguna. Allt kryddið í þessum heilsudrykk hefur áhrif til hins betra á meltinguna og mun þar af leiðandi hafa góð áhrif á húðina líka. Kryddin örva blóðrás sem eykur súrefnisflæði til húðar og fær hana til að geisla. Þau innihalda hátt magn af andoxunarefnum sem eru sérstaklega góð fyrir húðina en þau draga úr merkjum öldrunar. Að auki draga andoxunarefni úr skaðlegum áhrifum streitu, veðurs og annarra umhverfisáhrifa. Þessi blanda af bólgueyðandi og andoxandi áhrifum ásamt auknu blóðflæði og bættri meltingu ýtir undir unglegt útlit og geislandi húð.
Áhrif á heilsuna
Þessi heilsudrykkur er stútfullur af heilsubætandi áhrifum. Öll kryddin í honum eru bólgueyðandi, sérstaklega engifer, kanil og túrmerik ásamt því að draga úr vöðva- og liðverkjum. Kryddin geta líka lækkað kólesteról og dregið úr líkum á hjartasjúkdómum. Önnur áhrif eru t.d. bætt blóðrás og melting enda er tilvalið að drekka hann eftir máltíðir en kryddin eru notuð gegn meltingartruflunum, ógleði, ristilkrampa og magabólgum. Chai-te er líka styrkjandi fyrir ónæmiskerfið og góð forvörn gegn kvefi og flensum enda sérstaklega gott að drekka það yfir vetrartímann.
Fersk túrmerikrót
Heilar kardimommur
Chai-te
- 5-6 negulnaglar
- 6-9 heilar kardimommur
- 1/2-1 ceylon kanilstöng
- 4-6 svört piparkorn
- 4-6 sneiðar af ferskri engiferrót
- 2-3 ferskar túrmerikrætur, sneiddar (eða 1/2 tsk af túrmerikdufti)
- hnífsoddur af rifinni múskathnetu
- 1 bolli vatn
- 1 tsk. svart te í lausu (mér finnst Earl Grey best)
- 1 bolli af jurtamjólk t.d. haframjólk, hrísmjólk eða möndlumjólk
- 1 tsk. hrátt hunang
- Myljið kardimommur í mortéli og setjið í pott ásamt öðru kryddi og vatni. Látið sjóða undir loki í ½–1 mínútu.
- Bætið svörtu tei út í og látið sjóða stutta stund í viðbót.
- Bætið jurtamjólk út í og látið suðuna koma upp.
- Síið, hellið í könnu og bætið hunangi út í.
Einnig má nota fjallagrös í staðinn fyrir svart te, en þá eru fjallagrösin sett út í með kryddinu strax í upphafi.
Góð takk fyrir hana
‘Mjög góð grein og ég elska kraft náttúrunnar.
Takk kærlega.
Góð grein
Góð grein
Mjög góð grein
Þetta verð ég að prufa
Væri gott að fá bloggpóst hvar er best að kaupa þetta sem þú setur í þetta og annað svona heilsutengt. Á oft erfitt með að finna margt af þessu.
Sæll Eiríkur, öll þurrkuðu kryddin í þessari uppskrift fást í heilsubúðum og stórmörkuðum. Þú getur líka keypt þau í netversluninni kryddhus.is. Fersk engiferrót fæst í öllum stórmörkuðum en ferska túrmerikrót hef ég t.d. fengið í Melabúðinni en það er um að gera að nota bara þurrkað túrmerik ef þú finnur hana ekki ferska. Svart te og allar tegundir af jurtamjólk fást líka í stórmörkuðum. Hrátt hunang kaupi ég sjálf erlendis þannig ég get ekki hjálpað þér með það, það er fínt að nota bara venjulegt hunang sem fæst allstaðar ef þú finnur ekki hrátt.