Hvað er uppáhalds grænmetið þitt? Mitt er grasker, ég gjörsamlega elska það! Það er bæði létt og næringarríkt og það býður upp á svo marga möguleika.
Athugaðu að þessi uppskrift er ekki eftir mig (hvorki texti né myndir), heldur var hún búin til af vegan kokkinum Jolanta Gorzelana sem er gestabloggari hér af og til. Njóttu! – Anna Rósa
Þessi uppskrift að ofnbökuðu graskeri slær alltaf í gegn og er mjög einföld. Hægt er að bera graskerið fram eitt og sér eða sem meðlæti ásamt linsubaunasalati, gnocchi eða risotto. Svo geturðu líka maukað graskerið til að búa til dásamlega sósu eða súpu.
Svona undirbýrðu graskerið
Til eru margar graskerstegundir og þær eru margar hverjar með mismunandi hýði, þess vegna getur eldunartíminn verið misjafn. Ef þú velur grasker með þunnu hýði mæli ég með að skera það í hálfmána og baka það með hýðinu á (það kemur á óvart hvað hýðið er gott á bragðið). Ef þú velur grasker með hörðu og þykku hýði mæli ég með að flysja það og skera í hálfmána eða bita.
Bakað grasker með lime gljáa
Hráefni fyrir 4-6 skammta:
- 1 kg grasker (t.d. butternut squash)
- 25 g hvít eða svört sesamfræ
- Valkvætt: Steinselja, kóríander eða fínsaxaður vorlaukur
Fyrir lime gljáann:
- Börkur af 1 lime
- Safi úr ½ lime
- 4 msk jómfrúarólífuolía
- 1 og ½ msk af miso
- 2 – 3 msk hlynsíróp (eða annar fljótandi sætugjafi)
- 1 msk sesamolía
- 1 msk sojasósa eða tamarisósa
- Klípa af chili (meira ef vill)
- Klípa af salti
Aðferð:
- Stilltu ofninn á 220°C og klæddu bökunarplötu með bökunarpappír.
- Skolaðu graskerið, skerðu það í tvennt og fjarlægðu fræin. Vigtaðu 1 kg af því og skerðu í 2 cm þykkar sneiðar.
- Gerðu lime gljáann með því að hræra öllum hráefnunum saman í skál.
- Helltu gljáanum yfir graskerið og notaðu hendurnar eða pensil til að dreifa honum vel.
- Bakaðu graskerið í 30 mínútur og snúðu sneiðunum við eftir 15 mínútur.
- Ristaðu sesamfræin á pönnu (án þess að brenna þau).
- Sáldraðu fræjunum yfir graskerið þegar það er tilbúið. Ég mæli með að bæta við kóríander, steinselju eða fínsöxuðum vorlauk.
- Grasker eldað á þennan máta bragðast afar vel með baunum eða kínóa.
Um höfundinn
Jolanta Gorzelana er vegan kokkur sem heldur úti blogginu Vegan in Chic. Hún er upprunalega pólsk en bjó á Ítalíu í 11 ár þangað til hún flutti til Íslands, þar sem hún er búsett í dag. Jolanta hefur skrifað tvær matreiðslubækur og hefur mikla ástríðu fyrir að leita að innblæstri á ferðalögum og nýta hann svo til að skapa dásamlegar vegan uppskriftir.
Flott og spennandi, ætla örugglega að prófa