Ég er mikill aðdáandi listakokksins Ottolenghi og dýrka matreiðslubækurnar hans. Þessi ljúffenga vegan súpa er úr bókinni Simple en eins og nafnið gefur til kynna eru einfaldar uppskriftir í þeirri bók. Ég hef breytt uppskriftinni lítillega og í raun einfaldað hana enn frekar. Þessa fljótlegu súpu hef ég eldað margoft fyrir vini mína og undantekningalaust hafa þeir beðið mig um uppskriftina.
Hún er vegan og hentar öllum vel
Sjúklingar hjá mér fá líka þessa uppskrift því hún er vegan, glútenlaus og án mjólkur eða sykurs og hentar því flestum mjög vel. Þegar ég elda þessa súpu geri ég yfirleitt nokkuð mikið af henni og frysti í passlegum skömmtum en ég borða hana nánast í hverri viku. Mér finnst fátt betra en að eiga þessa súpu í frystinum því þá bíður mín holl máltíð þegar ég kem seint heim. Þannig forðast ég óhollan skyndibita og fæ aldrei samviskubit.
Ottolenghi vegan karrý-linsubaunasúpa
- 1 laukur, smátt skorinn
- 1 msk meðalsterkt karrýduft
- 1/4 tsk chilipipar/flögur
- 2 hvítlauksrif, smátt skorin
- 4 cm fersk engiferrót, afhýdd og smátt skorin
- 150 g rauðar linsubaunir, skolaðar
- 1 dós tómatar (400 g)
- 1 dós kókosmjólk (400 g)
- 25 g kóríander með stilkum, smátt skorinn, takið frá smávegis af blöðum til að skreyta með
- 600 ml vatn
- 1 tsk sjávarsalt
- 2 msk ólífuolía til steikingar
- nýmalaður svartur pipar
Steikið lauk og hvítlauk í olíu á meðalhita í smá stund og bætið síðan við engifer, chilipipar og karrýdufti og steikið aðeins lengur. Setjið linsubaunir, tómata, kóríander, vatn, salt og pipar út í og sjóðið í ca. 25 mínútur á lágum hita þar til linsubaunir eru mjúkar. Bætið við kókosmjólk í lokin og smakkið til með kryddi. Ef ykkur finnst súpan of þykk, bætið við vatni. Setjið í blandara eða notið töfrasprota til að mauka. Setjið í skál og skreytið með kóríanderblöðum. Þessi uppskrift er úr bókinni Simple eftir Yotam Ottolenghi (með smávegis breytingum).
Flott