FLÖSKUR OG KRUKKUR

Anna Rósa hefur sérstaklega valið krukkur og flöskur úr hágæða fjólubláu gleri fyrir húðvörurnar. Þetta fjólubláa gler er í hæsta gæðaflokki sem er mikilvægt til að vernda kremin gegn skaðlegum áhrifum ljóss, lengja ferskleika þeirra og auka geymsluþol. Umbúðirnar eru 100% endurvinnanlegar og hægt að nýta krukkur og flöskur aftur og aftur. Krukkulok og flöskutappar eru úr polypropylene- og polyethylene-plasti sem einnig er 100% endurvinnanlegt. Þessar umbúðir eru framleiddar í Evrópu öfugt við flestar aðrar snyrtivöruumbúðir sem framleiddar eru í fjarlægari löndum. Það þýðir minna kolefnispor sem var ein af ástæðum þess að Anna Rósa valdi þær umfram aðrar umbúðir. Tinktúrur og olíur eru í brúnum glerflöskum sem einnig vernda gegn skaðlegum áhrifum sólarljós á jurtirnar. Þessar flöskur eru 100% endurvinnanlegar og einnig framleiddar í Evrópu. Allir tepokar eru að sama skapi 100% endurvinnanlegir.

KASSAR

Við veltum því lengi fyrir okkur hvort við gætum sleppt því að hafa krukkur og flöskur undir húðvörur í kössum til að minnka umbúðir. Niðurstaðan var hinsvegar sú að það myndi ekki ganga upp því nauðsynlegur texti á bæði íslensku og ensku kæmist aldrei fyrir á krukkum og flöskum. Við sendum mikið í pósti og með því að hafa kassa getum við sleppt því að nota umtalsvert magn af umbúðapappír sem er óneitanlega kostur. Kassarnir eru úr FSC (Forest Stewardship Council) vottuðum pappír frá sjálfbærum skógum og eru að sjálfsögðu 100% endurvinnanlegir. Blek er unnið úr náttúrulegu endurnýtanlegu hráefni og kassarnir eru prentaðir í Svansvottaðri prentsmiðju (nr. 1041 0858).