Project Description

Steikt fíflablóm

Í fyrsta sinn þegar ég steikti fíflablóm varð ég alveg steinhissa, því ég hafði gert ráð fyrir að þau væru álíka beisk á bragðið og fíflablöð. Það kom því þægilega á óvart að steikt fíflablóm reyndust vera tölvert lík sveppum á bragðið og ákaflega ljúffeng. Nóg er af fíflablómum á vorin og því skora ég á ykkur að prófa þessa einföldu uppskrift, en fíflablóm eru tilvalin sem meðlæti með öðrum mat.

3 lúkur af fíflablómum með grænum bikarblöðum

ósaltað smjör

sjávarsalt og svartur pipar

Steikið fíflablómin í smjöri á vel heitri pönnu í nokkrar mínútur og kryddið eftir smekk.

Steikt fíflablöð

Steikt fíflablöð eru kjörið meðlæti með flestum réttum, ef ekki öllum. Þau eru ljúffeng og koma á óvart, því get ég lofað. Fíflablöðin eru best nýsprottin á vorin, en það má hinsvegar nota þau til matar allt sumarið. Þau verða aðeins beiskari þegar á líður en góð engu að síður. Fíflablöðin eru full af vítamínum og næringarefnum og því um að gera að borða sem mest af þeim þegar tækifæri gefst.

2 bollar túnfíflablöð, söxuð

2/3 dl jómfrúarólífuolía

1/2 ferskur rauður chili, fræhreinsaður

3 hvítlauksrif

2 cm fersk engiferrót

Grófsaxið fíflablöðin. Saxið smátt chili, hvítlauk og engifer. Hitið olíuna á pönnu, setjið allt á hana og steikið stutta stund. Tilvalið sem meðlæti með eggjaköku og fisk- og kjötréttum.